Hraða uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni

Erling Freyr Guðmundssyndi frá Ljósleiðara ásamt Margréti Tryggvadóttur og Benedikt …
Erling Freyr Guðmundssyndi frá Ljósleiðara ásamt Margréti Tryggvadóttur og Benedikt Ragnarssyni frá Nova. Ljósmynd/Aðsend

Nova og Ljósleiðarinn hafa undirritað samning um nýtingu Ljósleiðara á landsvísu sem mun flýta fyrir uppbyggingu 5G enn frekar.

Með þessu samstarfi gefst Nova enn frekar kostur á að styrkja fjarskiptasambönd landsmanna og hraða uppbyggingu 5G á landsbyggðinni og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þá hafa 65 sendar þegar verið settir upp í öllum landshlutum og er áætlað að þeir verði orðnir 200 árið 2024, að því er segir í tilkynningu.

„Nova hefur frá upphafi verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Þá samdi Ljósleiðarinn nýverið við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng NATO. Sá strengur liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða,“ að því er Nova greinir frá.

Jafnframt segir, að samstarf Nova og Ljósleiðarans ýti enn frekar undir það markmið stjórnvalda að fyrir árslok 2025 verði 99,9% þjóðarinnar með aðgengi að ljósleiðara.

„Aðgengi heimila, fyrirtækja og stofnana að öruggum fjarskiptum er mikilvægt í nútímasamfélagi. Uppbygging þessara innviða gegnir mikilvægu hlutverki í aukinni samkeppni á fjarskiptamarkaði og ekki síst fyrir heildsölu- og stórnotendur á landsbyggðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert