Geta nú tengt greiðslukort við Google Wallet

Viðskiptavinir Íslandsbanka sem notast við Android-síma geta nú tengst Google …
Viðskiptavinir Íslandsbanka sem notast við Android-síma geta nú tengst Google Wallet. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðskiptavinir Íslandsbanka sem notast við Android farsíma geta nú tengt greiðslukort sín við Google Wallet appið. Þannig má greiða fyrir vöru og þjónustu með snertilausum hætti með því að nota Google Pay á Android-farsímum sínum og snjalltækjum sem styðja Wear OS stýrikerfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Þar segir að innleiðing Google Wallet appsins sé hluti af aðgerðum sem gripið hefur verið til í kjölfar skoðunar bankans á hvernig bæta megi snertilausar greiðslur með Android farsímum, t.d. Samsung og Nokia, svo þær gangi hnökralaust fyrir sig.

Apple notendur hafa getað nýtt sér sambærilega þjónustu bankans frá árinu 2019 með því að nota Apple pay á iPhone-símum og Apple Watch.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdarstjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka, segir um tímamót að ræða.

„Þetta eru nokkur tímamót því Google Wallet hefur til þessa ekki verið aðgengilegt í Android tækjum á Íslandi. Íslandsbanki leggur sig fram um að mæta kröfum viðskiptavina og tryggja örugg og hnökralaus bankaviðskipti með notkun nýjustu og bestu tækni, hvort sem er með eigin lausnum eða í samvinnu við aðra eins og í þessu tilviki,“ segir Sigríður.

mbl.is