Mannkynið á rangri braut

Gríðarlegir gróðurelda hafa logað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum …
Gríðarlegir gróðurelda hafa logað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum sem rekja má til hlýnunar jarðar. AFP

Mannkynið er á rangri braut í loftslagsmálum vegna þess hve það er háð jarðefnaeldsneyti að sögn Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Samkvæmt nýrri samantekt hefur losun á gróðurhúsalofttegundum sem valda hlýnun jarðar færst í aukana í kjölfar lok kórónuveirufaraldursins. 

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO), sem heyrir undir SÞ, varar við alvarlegum afleiðingum dragi hagkerfi heims lappirnar í því að draga úr losun koltvísýrins í takti við það sem vísindamenn hafa talið nauðsylegt til að sporna gegn hlýnun jarðar. 

Flóð og aðrar öfgar í veðurfari hafa einnig valdið manntjóni …
Flóð og aðrar öfgar í veðurfari hafa einnig valdið manntjóni og eyðileggingu víða, m.a. í Pakistan. AFP

Vísindamenn hafa m.a. bent á þau gríðarlegu flóð sem hafa valdið manntjóni og eyðilegginu í Pakistan nýverið og mikla hitabylgju sem hefur gengið yfir Kína með þeim afleiðingum að víða hefur orðið uppskerubrestur. Þetta séu tvö dæmi um það sem búast megi við verði ekkert að gert í loftslagsmálum. 

„Flóð, þurrkar, hitabylgjur, öfgar í veðri og gróðureldar munu versna og slá öll fyrri met með ógnvænlegum hraða,“ sagði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. 

SÞ sögðu í ágúst að miklar þurrkar í austurhluta Afríku, sem hafa ógnað lífi og heilsu milljóna íbúa, munu að öllum líkindum halda áfram og þá hefur hættuástandið varað á horni Afríku í samtals fimm ár samfleytt.

Antonio Guterres líst ekki á blikuna.
Antonio Guterres líst ekki á blikuna. AFP

„Það er ekkert náttúrulegt við umfang þessara stórslysa. Þetta er verðið sem mannkynið greiðir fyrir fíkn sína í jarðefnaeldsneyti,“ sagði Guterres.

Í skýrslu SÞ segir, að í kjölfar kórónuveirufaraldurins, þar sem stjórnvöld víða um heim fengu tækifæri til að endurmeta sína orkugjafa, mengi nú ríki heims sem aldrei fyrr. 

Árið 2020 féll útblástur um 5,4% eftir að gripið varð til harðra sóttvarnaaðgerða um allan heim. Það var fordæmalaus lækkun á milli ára. Þegar rýnt er í gögn yfir útblástur fyrstu fimm mánuði þessa árs kemur í ljós að losun gróðurhúsalofttegunda hafa aukist um 1,2% miðað við ástandið fyrir faraldurinn. 

Ástæðuna má aðallega rekja til mikillar aukningar á losun í Bandaríkjunum, Indlandi og í flestum Evrópuríkjum á milli ára. 

„Vísindin eru ótvíræð; við erum á rangri braut,“ segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

„Gróðurhúsalofttegundir eru á uppleið og eru að ná nýjum hæðum. Losun frá jarðefnaeldsneyti er nú komin yfir það sem var fyrir faraldurinn. Undanfarin sjö ár eru þau hlýjustu frá því mælingar hófust.“

Loftslagsbanki Kópernikus-áætlunarinnar greindi frá því í liðinni viku að sumarið 2022 hafi verið það hlýjasta í Evrópu og eitt það hlýjasta á heimsvísu frá því mælingar hófust á áttunda áratug síðustu aldar, eða í um hálfa öld. 

Í skýrslunni sem var birt í gær, segir að það séu 93% líkur á því að metið fyrir hlýjasta ár sögunnar, sem er frá árinu 2016, verði slegið innan fimm ára. 

mbl.is