Hraðari taugaboð - einn af lyklum árangurs

Framtíðarleikmenn KR á æfingu í Vesturbænum. „Hvert barn fær markvissa …
Framtíðarleikmenn KR á æfingu í Vesturbænum. „Hvert barn fær markvissa þjálfun og ákveðna endurtekningu til að þjálfa færni sína í viðfangsefninu svo úrlausnin verði nánast sjálfvirk,“ skrifa Hermundur og Óskar. Eggert Jóhannesson

Rannsóknir í taugavísindum hafa áréttað sannleiksgildi orðtaksins að æfingin skapi meistarann. Talað er um myólíniseringu, sem geri að verkum að taugaboð berist hraðar milli taugafrumna. Hermundur Sigmundsson prófessor og Óskar Jósúason, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja, skrifa um mikilvægi myuólíniseringar við að efla grunnfærni.

Staðan: Það eru stöðugar kröfur um að einstaklingar bæti sig. Hvort sem það er til að auka við þá þekkingu sem er til staðar, eða öðlast nýja færni. Fyrir marga er stóra markmiðið að verða framúrskarandi á einhverju sviði. Ná samkeppnisforskoti og skara fram úr.

„Æfingin skapar meistarann!“ heyrum við oft sagt. Nú eru rannsóknir innan taugavísinda sífellt að sýna fram á fleiri lykilþætti sem útskýra betur sannleiksgildi þessa gamla orðtaks.

Hermundur Sigmundsson prófessor.
Hermundur Sigmundsson prófessor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jú, því fleiri tengingar milli taugafrumna (samanber kenningar og rannsóknir Edelmans) og hraðari taugaboð (myólínisering).

Vísindi: Taugafrumur byggjast upp af taugabol, griplum og taugasímum (þráðum). Taugabolur er með kjarna og griplur. Taugasími (axon) liggur frá taugabolnum og flytur taugaboð frá honum til annarrar taugafrumu. Taugasími hefur fituhjúp (myólín) sem gerir það að verkum að taugaboð berast hraðar milli taugafrumna. Því þykkari fituhjúpur, því hraðari taugaboð. Því hraðari taugaboð, því meiri líkur á aukinni færni.

Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að aldur hefur mikið að segja um möguleikana á að auka myólín. Í kringum 45 ára aldur er myólín heilans í hámarki og fer síðan minnkandi. Með öðrum orðum hægist á taugaboðum. Sem getur skýrt að með hækkandi aldri verða viðbrögð okkar aðeins hægari.

Hins vegar er MS-sjúkdómurinn „Multiple sclerosis“ sjúkdómur þar sem „myólínið“ eða fituhjúpurinn í kringum taugasímana rýrnar og þannig skerðist starfsemin jafnt og þétt. Rannsóknir sýna einnig að niðurbrot myólíns eykur líkurnar á því að viðkomandi fái alzheimers-sjúkdóm og hraðar einnig öldrun viðkomandi.

Óskar Jósúason, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.
Óskar Jósúason, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.

Í bókinni The Talent Code fjallar Daniel Cole um umhverfi þar sem náðst hefur að skapa framúrskarandi einstaklinga, bæði íþrótta- og tónlistarfólk. Hann fjallar um mikilvægi myólíns í þeirri þróun. Eins og bent er á í kenningu Edelmans, sem kalla má taugafræðilegan Darwinisma, (á ensku: „Neural Darwinism“) er endurtekning og markviss þjálfun lykilatriði í því að þróa net af taugafrumum sem kalla mætti „snaga“. Daniel Cole sýnir einnig fram á mikilvægi annars lykilþáttar til að ná framúrskarandi árangri. Hann felst í því að byggja upp aukinn fituhjúp í kringum taugasímana. Aukin æfing og fleiri endurtekningar gera „snagana“ stærri og sterkari sem leiðir af sér hraðari taugaboð. Endurtekning er þannig lykill að því að þróa netið sem er forsenda þess að taugaboð verði hraðari. Það er í lagi að gera mistök, en málið er að reyna aftur og að lokum verða færni og/eða þekking sjálfvirk. Þannig verður auðveldara að endurtaka verkefnið og að muna atriði sem eru orðin sjálfvirk.

Möguleikar: Það er klárt að uppbygging myólíns er einn af lyklunum að djúpu námi. Það skiptir máli að fjölga tengingum á milli taugafrumna. Að styrkja og skapa tauganet og aukin myólinisering eru lyklar að framförum í færni og þekkingarþróun. Það er því hlutverk okkar sem foreldra, kennara og þjálfara að aðstoða einstaklinga við að stunda markvissa þjálfun, þar sem endurtekning er í hávegum höfð.

Í verkefninu Kveikjum neistann er mikið lagt upp úr því að efla grunnfærni. Hvert barn fær markvissa þjálfun og ákveðna endurtekningu til að þjálfa færni sína í viðfangsefninu svo úrlausnin verði nánast sjálfvirk.„“

Þar kemur þjálfunartíminn sterkt inn þar sem börn fá áskoranir miðað við færni í þeim þáttum sem er mikilvægt að efla. Góður grunnur er lykill að góðum árangri í grunnskóla.

Hermundur er prófessor. Óskar er aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja. Grein þessi birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi, 18. september.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »