Brotlenti á smástirninu á gífurlegum hraða

Tölvugerð mynd frá því í nóvember sem sýnir DART geimskipið …
Tölvugerð mynd frá því í nóvember sem sýnir DART geimskipið í þann mund að klessa á Dímorfos. AFP/NASA

Mikil fagnaðarlæti brutust út í bandarísku geimferðastofnuninni NASA þegar geimfarið DART brotlenti á smástirninu Dímorfos í kvöld á 21.599 km/klst hraða. Geimfarið hefur verið á ferð í nokkra mánuði en því var skotið á loft í Kaliforníu í Bandaríkjunum í nóvember í fyrra.

NASA mun á næstunni fylgjast grannt með því hvort brotlendingin hafi borið tilskilinn árangur en markmiðið var að láta geimfarið fljúga á smástirnið til þess að hnika sporbraut þess um móðurhnöttinn Dídýmos. 

Þetta er gert í til­rauna­skyni til að ganga úr skugga um hvort hægt sé að breyta stefnu loft­steins sem myndi ann­ars lenda á jörðinni, hugs­an­lega með hrika­leg­um af­leiðing­um. Um er að ræða sögulega tilraun en þetta er í fyrsta skipti sem þetta er reynt. 

Geimfarið er á stærð við bif­reið en smá­st­irnið Dímorfos er um 160 metr­ar á lengd. Rétt áður en geimfarið brotlenti bárust fyrstu nákvæmu myndirnar af smástirninu.

Skjáskot af smástirnin úr geimfarinu rétt áður en það brotlenti.
Skjáskot af smástirnin úr geimfarinu rétt áður en það brotlenti. AFP/NASA
mbl.is

Bloggað um fréttina