Fimm milljarðar fara í súginn

Það er ekki skortur á símtækjum í heiminum. Fólk er …
Það er ekki skortur á símtækjum í heiminum. Fólk er hvatt til að endurvinna gömlu tækin í staðinn fyrir að geyma þau uppi í skáp eða henda í ruslið. AFP

Líklegt þykir að mati sérfræðinga að rúmlega fimm milljarðar af þeim sextán milljörðum farsíma sem eru nú í umferð í heiminum, verði hent eða þeir settir í geymslu á þessu ári. 

Sérfræðingar á vegum WEEE-forum (e. Waste Electrical and Electronic Equipment recycling) kalla eftir meiri endurvinnslu á þessum tækjum og þeim efnum, sem mörg hver eru skaðleg mönnum og umhverfinu, sem í þeim er að finna. 

Ef símarnir yrðu lagðir flatir niður og raðaðir hver ofan á annan, þá myndu þeir ná upp í 50.000 km hæð. Það er hundrað sinnum hærra en núverandi staðsetning Alþjóðlegu geimstöðvarinnar að sögn talsmanna WEEE. 

Þrátt fyrir að í símunum sé að finna verðmæta málma borð við gull, silfur, kopar og fleiri endurvinnanlega hluti, þá er talið að nánast öllum tækjunum verði fleygt, safnað saman eða þau brennd með tilheyrandi skaðsemi gagnvart fólki og umhverfinu. 

Pascal Leroy, framkvæmdastjóri WEEE-forum, segir að snjallsímar sé sú tegund raftækja sem menn hafi mestar áhyggjur af. „Ef við endurvinnum ekki þau sjaldgæfu hráefni sem eru í þeim, þá þurfum við að grafa eftir þeim í löndum á borð við Kína og Kongó,“ sagði Leroy í samtali við AFP. 

Farsímar sem eru ekki lengur í notkun eru aðeins toppurinn á ísjakanum, því árlega fara um 45 milljón tonn af raftækjum ekki í endurvinnslu. Þetta kom fram í skýrslu samtaka frá árinu 2020.

Mörg gömlu símtækjanna fara í geymslu í stað þess að þeim verði fleygt í ruslið. Margir geyma, eða gleyma, gömul símtæki í skúffum, skápum og bílskúrum í stað þess að láta gera við þau eða endurnýta. 

Sé horft á meðalfjölskyldu í Evrópu, þá er talið að hver og einn einstaklingur geymi hátt í fimm kíló af raftækjum sem eru ekki lengur í notkun. Í spurningarkönnun, sem var lögð fyrir 8.775 heimili, sögðu 46% þátttakenda að möguleg notkun á tækinu í framtíðinni sé helsta ástæða þess að fólk geymi gömul tæki í staðinn fyrir að skella þeim í endurvinnslu. 

Um 15% sögðust geyma tæki til að selja síðar, eða gefa, á meðan 13% sagðist ekki vilja losa sig við tækin af tilfinningalegum ástæðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert