Neistinn kveiktur í Vestmannaeyjum

Lestur er klárlega færni og þarfnast mikillar markvissrar þjálfunar til …
Lestur er klárlega færni og þarfnast mikillar markvissrar þjálfunar til að hún verði góð. Lestur er einn af lyklum menntunar og til að efla lestur barna og unglinga við Grunnskóla Vestmannaeyja er samstarfið við Bókasafnið í Vestmannaeyjum mikilvægt, segja höfundar greinarinnar um verkefnið Kveikjum neistann. Styrmir Kári

Í Vestmannaeyjum hefur verkefnið Kveikjum neistann, sem gengur út á að efla lestrarkennslu og bæta árangur í læsi, þegar haft áhrif. Á föstudag, 21. október, verður farið yfir árangurinn af verkefninu í Sagnheimum í Safnahúsi Vestmannaeyja. Hermundur Sigmundsson, Anna Rós Hallgrímsdóttir og Kári Bjarnason fara hér yfir framkvæmd verkefnisins og afraksturinn.

Kveikjum neistann-verkefnið fór af stað í Grunnskóla Vestmannaeyja haustið 2021. Sem þýðir að einu skólaári er lokið í þessu þróunarverkefni. Þróunarverkefnið snýst um að bæta árangur í læsi, mæta nemendum þar sem þau eru stödd, gefa þeim réttar áskoranir og hjálpa þeim að finna sína ástríðu. Í verkefninu er einnig mikið unnið með að efla gróskuhugarfar og er það líklega stærsta áskorunin, að efla hugarfar þannig að þrautseigja og trú á eigin getu sé ofan á og að fá alla með í það, starfsfólk skólans, nemendur og foreldra.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. Kristinn Magnússon


Fyrsta árið í verkefninu var áherslan á 1. bekk og á lesturinn, til að mæla árangur var notast við nýtt skimunarpróf LESTU sem er bókstafa- og hljóðapróf, í því prófi er kannað hversu marga bókstafi og hljóð nemandi þekkir og talað um að brjóta lestrarkóðann ef nemandi þekkir ákveðið marga bókstafi og hljóð. Niðurstöður úr skimunarprófinu voru virkilega ánægjulegar, hver einasti nemandi bætti sig á milli prófa og fór alltaf glaður og fullur sjálfstrausts út úr prófinu því upplifun nemenda var að hafa staðið sig vel og bætt sig.

Eftir þetta fyrsta skólaár í verkefninu sjáum við einnig mikilvægi þess í að slaka aðeins á, að vera meðvituð um það að ætla ekki að gera of mikið í einu og þá sérstaklega með nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í skóla. Það skiptir máli að gefa sér tíma í hvert verkefni og vera viss um að nemendur nái því sem lagt er fyrir þá og halda ekki áfram fyrr en nemendur eru tilbúnir og öruggir til þess. Í þjálfunartímum fá svo þeir nemendur sem komnir eru lengra tækifæri til að fara hraðar yfir og allir fá verkefni við hæfi.

Markviss þjálfun

Í bókinni The Talent Code er farið yfir þá þætti sem má telja að séu lykilþættir í að verða framúrskarandi. Þeir þættir eru: „deep practice“ eða markviss þjálfun; mentor og „ignition“ eða kveikjum neistann. Val á nafni fyrir okkar hugmyndafræði, Kveikjum neistann, má því segja að passi vel við það sem höfundur bókarinnar, Daniel Cole, fann út í sinni leit að lykilþáttum fyrir framúrskarandi árangur á ýmsum sviðum. Þar sem að kveikja neista, skapa áhuga, finna ástríðu (e. passion) og þróa hana er algjört lykilatriði.

Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.
Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.


Rannsóknir sýna klárlega mikilvægi ástríðu fyrir árangur. Ástríða er einn af fjórum lykilþáttum sem má segja að séu áhugahvetjandi þættir. Hinir eru þrautseigja, gróskuhugarfar og sjálfstraust gagnvart verkefnum sem þarf að leysa (e. self-efficacy). Þessir þættir má segja að hafi mest áhrif á okkar árangur og vellíðan. Ericsson, einn af fremstu fræðimönnum heims, fann út í sínum rannsóknum að markviss þjálfun væri lykill að árangri bæði hvað viðkemur færni og þekkingu. Lestur er klárlega færni og þarfnast mikillar markvissrar þjálfunar til að hún verði góð. Lestur er einn af lyklum menntunar og til að efla lestur barna og unglinga við Grunnskóla Vestmannaeyja er samstarfið við Bókasafnið í Vestmannaeyjum mikilvægt.

Málþing

Föstudaginn 21. október verður efnt til málþings í Sagnheimum, Safnahúsi Vestmannaeyja. Tilefnið er að nú er lokið fyrsta heila skólaárinu þar sem kennt er eftir hugmyndafræðinni sem kölluð hefur verið Kveikjum neistann! Þeir fjölmörgu aðilar sem að verkefninu koma í samstarfi við Grunnskóla Vestmannaeyja koma saman þennan dag og leitast við að meta árangur af því sem komið er, hvernig verkefnið hafi breyst í framkvæmdinni fyrsta árið miðað við það sem lagt var upp með, hvort nýjar áskoranir eða jafnvel óvænt tækifæri hafi skotið upp kollinum o.s.frv.

Bókasafn Vestmannaeyja

Ástæðan fyrir því að fyrsta málþingið er haldið í Sagnheimum er Bókasafn Vestmannaeyja. Þeir fræðimenn sem helst hafa blásið hugmyndafræðilegum glæðum að verkefninu Kveikjum neistann! eru einhuga um að markviss þjálfun sé lykilhugtak í að efla læsi meðal barna. Hinir sömu fræðimenn fullyrða jafnframt að fjölbreytt úrval bóka ásamt einfaldari leið barns að bók séu tveir mikilvægustu lyklarnir á farsælli leið til árangurs. Þess vegna er bókasafnið, með sitt 13.000 eintaka barnabókasafn og 10.000 titla sem starfsmenn safnsins eru að hamast við að litamerkja út frá ólíku lesþroskastigi, orðið ómetanlegur samherji í baráttunni við að efla lestur.

Kári Bjarnason, forstöðumaður Bókasafns og Safnahúss Vestmannaeyja.
Kári Bjarnason, forstöðumaður Bókasafns og Safnahúss Vestmannaeyja.


Bókasafnið er æfingabúðir fyrir lesþjálfun. Við starfsmennirnir sjáum mælanlega aukningu hvað varðar not barna á safnkosti okkar ár frá ári. Þannig voru 42 börn í Grunnskóla Vestmannaeyja skráð í Sumarlestur 2018, ári síðar 68, þá 74, 2021 voru þau orðin 138 og í sumar, eftir fyrsta árið með Kveikjum neistann!, skráðu sig til leiks samtals 180. Árlegur Jólasveinaklúbbur okkar hefur einnig vaxið reglulega ár frá ári.

Að lokum má geta þess að bókasafnið fékk leyfi bæjaryfirvalda til að láta reyna á laugardagsopnun á safninu í vetur og gefa fyrstu laugardagarnir frábær fyrirheit. Hingað hafa sópast börn með pabba og mömmu, afa og ömmu og lesið, hlustað, púslað, litað og valið bækur til að lesa heima. Þannig leggjum við okkar af mörkum til að Kveikja neistann!

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann.

Anna Rós er skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja.

Kári er forstöðumaður Bókasafns og Safnahúss Vestmannaeyja.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »