„Þetta eru mjög spennandi tímar“

Dr. Sigurdís Haraldsdóttir segir tilraunir með ný blóðpróf, sem ætlað …
Dr. Sigurdís Haraldsdóttir segir tilraunir með ný blóðpróf, sem ætlað sé að greina tugi tegunda krabbameins á sáraeinfaldan hátt, spennandi en slíkar tilraunir taki þó jafnan nokkur ár. Ljósmynd/NFCR.org

„Þetta er auðvitað mjög spennandi þróun með þessi blóðpróf til að greina krabbamein snemma,“ segir dr. Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga við Landspítalann og dósent við læknadeild Háskóla Íslands, um nýjar greiningaraðferðir krabbameina sem nú eru í þróun, svo sem Trucheck-prófið sem Morgunblaðið fjallaði um í gær.

„Á síðustu fimm til sjö árum hafa verið þróuð nokkur próf, sum komin lengra en önnur, þar sem verið er að prófa tækni sem greinir erfðaefni úr krabbameinsfrumum í blóði,“ útskýrir Sigurdís, „tilgangur þessara prófa er auðvitað að reyna að greina krabbamein eins snemma og hægt er, þegar það er enn á læknanlegu stigi,“ segir hún.

Trucheck-prófið sé aðeins eitt nokkurra slíkra prófa. Hins vegar sé Galleri-prófið svokallaða, sem nota má til að skima fyrir minnst 50 tegundum krabbameins, komið í stóra rannsókn í Bretlandi, sem hófst fyrir ári, með gríðarstóru þýði, eða 140.000 manns.

Kæmi í stað skimana

„Tilgangurinn er að skoða hvort hægt sé að greina krabbamein með einföldu blóðprófi og þá margar tegundir krabbameina. Þú getur rétt ímyndað þér hvað slíkt væri gagnlegt, í stað þess að fólk fari gegnum alls konar skimanir, brjóstakrabbameinsskimun, leghálsskimun og blöðruhálskrabbameinsskimun, væri hægt að gera þetta með einni blóðprufu,“ segir krabbameinslæknirinn.

„Þetta er ekki eitthvað sem við getum notað fyrir almenning …
„Þetta er ekki eitthvað sem við getum notað fyrir almenning enn sem komið er. Þessi próf yrðu notuð fyrir heilbrigt fólk sem er án einkenna.“ Ljósmynd/Aðsend

Kveður hún þó nokkra bið eftir að umrædd próf fari í klíníska notkun, enn sé verið að reyna nýju prófin í stórum langvinnum rannsóknum. „Þannig að þetta er ekki eitthvað sem við getum notað fyrir almenning enn sem komið er. Þessi próf yrðu notuð fyrir heilbrigt fólk sem er án einkenna,“ útskýrir Sigurdís.

Hvernig skyldu þessar umfangsmiklu rannsóknir fara fram?

„Þetta er auðvitað töluvert mismunandi eftir því hvaða próf er verið að skoða en flestar tilraunirnar ganga út á að skoða hvort erfðaefni úr krabbameinsfrumum finnist í blóði. Það er greint annaðhvort með því að leita að ákveðnum stökkbreytingum eða methyleringu ákveðinna gena,“ segir Sigurdís.

Þú vilt greina fólk áður en það fær einkenni

Í sumum prófum sé einnig verið að skoða ákveðin prótein í blóði. Ávallt sé þó æskilegt að prófin hafi sem best næmi og greini krabbamein, sé það til staðar, auk þess sem svokallað sértæki skipti einnig höfuðmáli, það er að segja að heilbrigður einstaklingur skili neikvæðu prófi, „svo maður sé ekki að senda fólk í óþarfa rannsóknir eftir falskt jákvætt prófsvar“.

Hvaða mannskapur er þá almennt nýttur í rannsóknir sem taka til þúsunda einstaklinga erlendis?

„Í þessari stóru bresku rannsókn er til dæmis verið að skoða einstaklinga úr þjóðfélaginu sem eru án einkenna, sem sagt heilbrigt fólk, þótt það geti borið einhverja aðra sjúkdóma en krabbamein. Það er auðvitað þannig sem þú vilt nota prófið, þú vilt greina fólk sem er ekki komið með einkenni frá krabbameininu, þannig greinist það snemma, áður en það fær einkenni,“ útskýrir dósentinn. Upphaflegar prófanir séu þó framkvæmdar á fólki sem er með krabbamein svo öruggt sé að prófin gefi þá jákvæða svörun.

Deila sér niður á sérsvið

Sigurdís segir þróunina á hennar fræðasviði mjög öra og þurfi hún að hafa sig alla við til að vera með á nótunum um það sem efst er á baugi eða kemur nýtt fram á hverjum tíma. Sækir hún hvort tveggja ráðstefnur og les fræðiskrif.

„Ég var á ráðstefnu í byrjun árs til dæmis þar sem verið var að kynna ýmis próf og rannsóknir sem nú eru í gangi. Það er gríðarlega margt að gerast í faginu og við þurfum í raun öll að vera með fókus á ákveðin krabbamein, minn fókus hefur til dæmis verið á meltingarfærakrabbamein og við krabbameinslæknar skiptum þessu svolítið með okkur, hver er okkar aðalfókus, því þetta er svo gríðarlega viðamikið, mörg ný lyf og alls konar ný greiningartækni að koma fram. Þetta eru mjög spennandi tímar núna síðasta áratuginn,“ segir Sigurdís.

Hvernig skyldi nýliðun vera meðal krabbameinslækna á Íslandi, sækja nægilega margir að þessu sviði læknisfræðinnar svo halda megi uppi öflugu starfi?

„Við erum nú svo heppin að við fengum tvo nýja krabbameinslækna heim í haust og svo eru nokkrir úti í sérnámi að auki,“ svarar Sigurdís. Þá sé spennandi fyrir læknanema sem heimsæki krabbameinsdeildir Landspítalans að sjá framþróunina í faginu, „hvað við getum gert miklu meira fyrir sjúklinga í dag en fyrir tíu, fimmtán eða tuttugu árum,“ lýkur dr. Sigurdís Haraldsdóttir yfirlæknir máli sínu.

mbl.is