Ríflega tvöfalt meiri hlýnun í Evrópu en á heimsvísu

Evrópa er lifandi dæmi um hlýnun jarðar.
Evrópa er lifandi dæmi um hlýnun jarðar. AFP

Hlýnun í Evrópu á síðastliðnum 30 árum hefur verið ríflega tvöföld á við þá hlýnun sem hefur átt sér stað á heimsvísu á sama tímabili. Um er að ræða mestu hækkun fyrir einstaka heimsálfu. Með aukinni hlýnun aukast líkur á því að hátt hitastig, gróðureldar, flóð og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga hafi áhrif á samfélög, efnahag og vistkerfi.

Kort/Veðurstofa Íslands

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Veðurstofu Íslands þar sem vísað er í nýútkomna skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um ástand loftslags Evrópu

Þar segir einnig, að á árabilinu 1991-2021 hafi hiti í Evrópu hækkað um 0,5°C að meðaltali á áratug.

Yfirlit yfir nokkra atburði sem höfðu mikil áhrif á Evrópulönd …
Yfirlit yfir nokkra atburði sem höfðu mikil áhrif á Evrópulönd árið 2021 (gögn frá Veður- og loftslagsþjónustu Þýskalands, DWD).

„Afleiðingarnar eru meðal annars þynning jökla á Alpasvæðum og bráðnun ísbreiðunnar á Grænlandi sem veldur hækkandi sjávarstöðu víðast hvar um álfuna. Árið 2021 leiddi aftakaveður og aðrir loftslagstengdir atburðir til hundruða dauðsfalla, hafði bein áhrif á meira en hálfa milljón íbúa og olli fjárhagslegu tjóni sem nemur meira en 50 milljörðum Bandaríkjadala. Um það bil 84% þessara atburða voru flóð eða óveður,“ segir í umfjöllun Veðurstofunnar. 

„Evrópa er lifandi dæmi um hlýnun jarðar og minnir okkur á að jafnvel þó samfélög séu vel undirbúin eru þau ekki örugg fyrir áhrifum aftakaveðurs. Í ár, eins og árið 2021, hafa gríðarlegar hitabylgjur og þurrkar herjað á stór svæði í Evrópu og meðal annars leitt til gróðurelda. Árið 2021 leiddu mikil flóð til dauðsfalla og eyðileggingar,“ er haft eftir aðalritara WMO, Tetteri Taalas.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina