Íslendingar gefa tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja

Mynd sem sýnir hjartaaðgerð.
Mynd sem sýnir hjartaaðgerð.

Samtals 24 Íslendingar hafa fengið hjartaígræðslu frá árinu 1988 þegar fyrsti Íslendingurinn fór í slíka aðgerð í Bretlandi. Á síðustu tveimur áratugum hefur hjartagjöfum hér á landi fjölgað umtalsvert og gefa Íslendingar nú næstum því tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna Háskóla Íslands og Landspítalans.

Hjartaígræðslur  eru ekki gerðar hérlendis en alls hafa 24 Íslendingar gengist undir slíka aðgerð erlendis frá 1988, flestir á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að meðallifun eftir aðgerð var 24,2 ár og voru 91% sjúklinga á lífi einu ári frá aðgerð og 86% fimm árum síðar, sem er á pari við stærri ígræðslusjúkrahús nágrannalandanna.

Af 24 sjúklingum voru 19 karlar og fengu þrír hjarta- og lungnaígræði samtímis, tveir hjarta- og nýranaígræði samtímis og einn endurígræðslu. Meðalaldur sjúklinga var tæp 40 ár og  voru 20 aðgerðanna framkvæmdar í Gautaborg, þrjár í  London og tvær í Kaupmannahöfn.

Við hjartaflutning er notast við einkaflugvélar þegar fara þarf erlendis, …
Við hjartaflutning er notast við einkaflugvélar þegar fara þarf erlendis, enda aðeins fjögurra klst rammi sem er til staðar.

Hjá sjúklingum með hjartabilun á lokastigi, þar sem önnur meðferð hefur verið fullreynd og þeir ekki taldir eiga 12 mánuði ólifaða, getur hjartaígræðsla komið til greina. Er þá notast við gjafahjarta úr einstaklingi með alvarlega höfuðáverka eða heilablæðingu þar sem hjartað starfar eðlilega.

Gjafahjartað verður að græða í þegann innan fjögurra klukkustunda en með því að notast við einkaþotu geta Íslendingar gefið hjörtu fyrir ígræðslu sem nýtast annars staðar á Norðurlöndum.

Nánar má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar í Læknablaðinu sem og um algengi og orsakir hjartabilunar.

mbl.is