Þýða heilabylgjur lamaðs manns

Heilinn er magnað fyrirbæri.
Heilinn er magnað fyrirbæri. AFP

Lamaður einstaklingur sem hvorki getur talað né vélritað gat stafað meira en þúsund orð með því að nota taugastoðtæki sem þýðir heilabylgjur hans í heilar setningar að sögn bandarískra vísindamanna. 

„Allt er mögulegt,“ var einn af uppáhaldsfrösum mannsins að sögn Sean Metzger, sem fer fyrir rannsókninni hjá háskólanum í Kaliforníu San Francisco (UCSF).

Á síðasta ári sýndi teymið fram á að heilaígræðslan, sem kallast heila-tölvuviðmót (e. brain–computer interface), gæti þýtt 50 algeng orð sem einstaklingurinn reyndi að segja að fullu.

Stækka orðaforðann upp í níu þúsund orð

Rannsóknin var nýverið birt í tímaritinu Nature Communications. Þar segir að teymið hafi getað þýtt heilabylgjur einstaklingsins er hann stafaði stafrófið. 

„Þannig að ef hann er að reyna segja köttur, myndi hann segja charlie-alpha-tango [sem stafar orðið cat, enska orðið yfir köttur],“ sagði Metzger í viðtali við AFP-fréttaveituna. 

Vísindamennirnir gátu þýtt fleiri en 1.150 orð, sem ná „yfir 85% af innihaldi náttúrulegra enskra setninga“, sagði í niðurstöðum rannsóknarinnar. 

Gert er ráð fyrir að hægt verði að stækka orðaforðann upp í 9.000 orð, sem samsvarar fjölda orða sem flestir einstaklingar nota á einu ári. 

Einstaklingurinn sem tók þátt í rannsókninni kallast BRAVO1 og er á fertugsaldri. Hann fékk heilablóðfall á þrítugsaldri sem leiddi til þess að hann getur ekki talað, en vitsmunaleg virkni hans er þó óskert. Hann á að venju samskipti við fólk með því að nota bendi sem er fastur við derhúfu. Þannig ýtir hann á stafi á tölvuskjá. 

Árið 2019 var tölvuviðmótið grætt í heila mannsins með skurðaðgerð og síðan þá hafa vísindamennirnir getað rannsakað heilabylgjur mannsins er hann reynir að segja eitthvað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert