Hvað er Mastodon?

Mastodon er vinsæll kostur hjá fyrrverandi notendum Twitter.
Mastodon er vinsæll kostur hjá fyrrverandi notendum Twitter. AFP/Joel Saget

Í kjölfar yfirtöku Elons Musk á Twitter hafa sumir notendur samfélagsmiðilsins fært sig yfir á aðra miðla. Einn vinsælasti arftaki Twitter er Mastodon.

Stofnandi Mastodon og eini starfsmaður fyrirtækisins, Eugen Rochko, byrjaði að búa til miðilinn árið 2016 en í kjölfar yfirtöku Musks á Twitter hefur orðið gífurleg fjölgun á notendum.

CNN segir að notendur Mastodon séu nú fleiri en milljón manns, en tæplega helmingur allra notenda stofnuðu aðgang sinn á síðustu tveimur vikum.

Eins í fljótu bragði

Í fljótu bragði lítur Mastodon svipað út og Twitter. Hægt er að skrifa færslur sem kallaður eru „flaut“ (e. toot) sem eru sambærilega færslum á Twitter sem eru kallaðar tíst (e. tweet).

Flaut geta ekki verið lengri en 500 stafir og hægt er að setja inn myndir, myndbönd, skoðanakannanir og fleira með sama hætti og á Twitter ásamt því að fylgja ákveðnum notendum og fylgjast með því sem þeir „flauta“.

Aðal munurinn á samfélagsmiðlunum hefur að gera með hvernig þeir eru gerðir út. Ólíkt Twitter er Mastodon ekki með neina eina miðlæga heimasíðu sem er hýst á einum stað í eigu fyrirtækis.

Mastodon gerir sig út fyrir að vera ókeypis og opinn hugbúnaður (e. open-source).

Þegar notendur búa til aðgang sinn þurfa þeir að skrá sig á ákveðinn netþjón sem mun hýsa aðganginn. Þetta virkar á svipaðan hátt og þegar búið er til netpóstfang að þá þarf að velja sér hýsil, eins og Gmail eða Yahoo.

Eftir að netþjónn er valinn getur notandi fylgt notendum af öðrum netþjónum og haft samskipti við þá eins og á Twitter.

Enginn einn getur átt Mastodon

BBC lýsir Mastodon þannig að það sé ekki eitthvað eitt fyrirbæri. Heldur tengjast allir þessir mismunandi netþjónar saman og mynda eina heild.

Netþjónarnir eru í eigu mismunandi fyrirtækja og einstaklinga og er Mastodon þannig ekki í eigu einhvers eins einstaklings né fyrirtækis.

Stofnandi Mastodon, Eugen Rochko frá Þýskalandi, sagði í viðtali við tímarit Time að það hafi einmitt verið kveikjan að hugmyndinni að Mastodon.

„Ég var að hugsa um það hversu mikilvægt það væri að hafa leið til þess að hafa samskipti við vini mína á netinu í gegnum stutt skilaboð og hversu mikilvægt það væri fyrir heiminn,“ sagði Rochko.

Taldi hann að slík ábyrgð ætti kannski ekki að vera í höndunum á einu stöku fyrirtæki.

mbl.is

Bloggað um fréttina