Apabóla hlýtur nýtt heiti

Bólusetningarlyf gegn apabólu, nú mpox.
Bólusetningarlyf gegn apabólu, nú mpox. AFP/Patrick T. Fallon

Veirusjúkdómurinn apabóla eða monkeypox mun hér eftir bera einfaldara heiti, mpox, eftir því sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur gefið út. Tilgangur nafnbreytingarinnar er að draga úr stimplun og hvetur stofnunin til sem útbreiddastrar notkunar mpox „til að lágmarka núverandi neikvæð áhrif nafnsins“.

Sjúkdómurinn greindist fyrst í öpum við rannsókn í Danmörku árið 1958 og dregur nafn sitt af því. Kveðst WHO hafa ráðfært sig við alþjóðlega sérfræðinga áður en ákvörðun um nýtt nafn var tekin. Verða bæði nöfnin, monkeypox og mpox, í notkun í eitt ár, en eftir það dettur eldra nafnið úr notkun.

81.107 tilfelli á árinu

Sjúkdómurinn greindist fyrst í mönnum árið 1970 í Lýðveldinu Kongó í Afríku og hefur síðan smitast manna á milli, þó einkum í Vestur- og Mið-Afríku. Í maí á þessu ári tók sjúkdómurinn þó að dreifa sér víðar, einkum meðal samkynhneigðra karlmanna, og hafa 81.107 tilfelli nú greinst í 110 löndum en skráð dauðsföll fram til þessa verið 55.

Mpox lýsir sér með háum hita, vöðvaverkjum og síðar útbrotum á húð sem verða að vökvafylltum blöðrum með þykku hrúðri. Veikindin standa yfir í tvær til fjórar vikur og ná langflestir sér að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert