Hvernig náum við að bæta líðan barna í skóla?

Er rangt brugðist við ADHD hjá börnum og unglingum hér á landi? Hermundur Sigmundsson, Arnar Ævarsson og Svava Þ. Hjaltalín fjalla um breytt skipulag skóladagsins og hugmyndafræðina á bak við það.

Getur það talist ásættanlegt að 15% drengja, 10-14 ára, fái lyf við ADHD hér á landi? Getur verið að eitthvað í kerfinu komi ekki til móts við þarfir þeirra? Á hinum Norðurlöndunum er talan undir 5% og sama má segja að séu alþjóðleg viðmið. Ef 5 drengir af 100 í Danmörku fá lyf, fá 15 drengir af 100 lyf á Íslandi.

Í samtali um lyfjanotkun barna og unglinga á Íslandi vegna ADHD, við Dr. Charlotte Fiskum, eina af fremstu fræðimönnum á sviði ADHD og einhverfu í sálfræðideild NTNU í Þrándheimi, segir hún stöðuna hér á landi slæma og að Íslendingar ættu ekki að sætta sig við hana. Hér á landi þarf að auka faglega umræðu um þessa stóru áskorun, einstaklingunum til heilla.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. mbl/Kristinn Magnússon

Johan Wiklund, prófessor við Syracuse-háskóla, er einn af þeim fræðimönnum sem talar um ADHD sem styrkleika. Það gerir hann í tengslum við frumkvöðlastarfsemi. Samkvæmt honum eru annars vegar engir jafn áhugalausir og órólegir og einstaklingar með ADHD ef þeir hafa ekki áhuga á viðfangsefninu og hins vegar engir jafn áhugasamir og einbeittir, hafi þeir áhuga á viðfangsefninu.

Þetta hefur með ástríðu og þrautseigju að gera og er ein af höfuðástæðunum fyrir því að þessir einstaklingar eru oft frábærir frumkvöðlar. Rannsóknir hans eru gífurlega mikilvægar og ættu að vera hornsteinn að því að breyta ímynd einstaklinga með ADHD. Það þarf að gefa þeim rétt verkefni og áskoranir.

Það er áhugaverð nálgun sem kemur fram hjá þessum fræðimönnum og þess virði að ræða hana en samkvæmt þeim á að breyta kerfinu í stað þess að gefa börnum lyf í þessum mæli. Það má til dæmis gera með því að stytta skóladaginn, auka hreyfingu, hafa meira val, efla ástríðu og byrja skólagönguna 7 ára, eins og Finnar.

Ef ekki telst raunhæft að seinka upphafi grunnskólagöngu barna, þá er mjög mikilvægt að fara rólega af stað fyrsta árið og fara hægt í aðra þætti en líðan, hegðun og félagsleg samskipti. Gæta þess að setja ekki pressu á þessi litlu börn sem eru að stíga sín fyrstu skref á langri göngu í grunnskóla.

Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.
Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla. Ljósmynd/Aðsend

Breytt skipulag skóladagsins er hugmyndafræði sem unnið hefur verið með frá 2005. Nálgunin byggist á viðurkenndum rannsóknum og nær til þátta eins og þessara:

  • Tímar eru aldrei lengri en 35-40 mínútur: Gríðarlega mikilvægt fyrir einbeitingu sem er lykill að námi og því að tileinka sér færni og þekkingu.
  • 10 til 15 mín hlé á milli tíma (helst að fara út og fá frískt loft): Mikilvægt er að fá hvíld frá verkefnum sem leiðir til þess að það verður auðveldara að ná einbeitingu eftir frímínútur með hreyfingu.
  • Hreyfing í fyrstu tímum dagsins: Mikilvæg til að losa sig við orku og eykur einnig dópamínframleiðslu – en það er ánægjuhormónið.
  • Grunnfærni fyrir hádegi: Mikilvægt að leggja áherslu á grunnfærni þegar börnin eru best upplögð.
  • Þjálfunartíminn strax eftir hádegi: Þar fá börn áskoranir miðað við færni sem er lykill að því að ná valdi á viðfangsefninu og aukinni virkni dópamíns – tilfinningin verður: ÉG GET!
  • Ástríðutíminn – í lok skóladagsins: Þegar börn koma í skólann að morgni geta þau valið hvaða viðfangsefni þau vilja fást við í lok skóladagsins.
Svava Þ. Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun …
Svava Þ. Hjaltalín, grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands.

Ofantaldir þættir eru lyklar nálgunarinnar

Þetta er sú nálgun sem hefur nú verið nýtt í eitt og hálft skólaár við grunnskóla Vestmannaeyja. Einn fyrsti bekkur hefur farið í gegnum heilt skólaár og nú hafa ný börn hafið nám í fyrsta bekk. Árangur eftir fyrsta árið er mjög góður. Öll börnin hafa brotið lestrarkóðann og það sem meira er, að líðan þeirra barna sem fylgdu breyttu skipulagi skóladagsins, er marktækt betri en þeirra barna sem byrjuðu haustið 2020.

Upplifun þeirra sem að verkefninu koma er:

  • Ánægðari börn
  • Ánægðari kennarar
  • Ánægðari foreldrar

Breytum skipulagi skóladagsins, einföldum hann. Gerum það besta fyrir börnin okkar og unglingana, þeirra er framtíðin.
Eflum mannauð!

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. Arnar er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla. Svava er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar í Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »