Fyrsta gervihnattaskot Breta í vaskinn

Boeing 747-þotan Cosmic Girl sleppir burðarflauginni í gær. Í fyrstu …
Boeing 747-þotan Cosmic Girl sleppir burðarflauginni í gær. Í fyrstu lék allt í lyndi en eitthvað brást eftir að annað skotþrep flaugarinnar var ræst. Ljósmynd/National Space Centre

Söguleg fyrsta tilraun Breta til að koma gervitungli, eða -tunglum reyndar, níu stykkjum, á braut um jörðu í gærkvöldi endaði í vonbrigðum þegar annað þrep burðarflaugar virkaði ekki sem skyldi og flaugin náði ekki að koma gervitunglunum á sporbaug.

Flauginni var sleppt úr Boeing 747-400-þotunni „Cosmic Girl“ sem tók á loft frá Newquay í Cornwall að viðstöddu margmenni sem komið var til að fylgjast með þessu fyrsta gervihnattaskoti landsins sem var á vegum bresku geimferðastofnunarinnar UK Space Agency.

Allt gekk að óskum í byrjun áður en téð bilun kom upp sem stofnunin skýrði ekki með öðru en að þar hefði orðið frávik (e. anomaly). Talsmaður stofnunarinnar og stjórnandi geimskotsins, Matt Archer, gat heldur ekki staðfest við breska ríkisútvarpið BBC hvað orðið hefði um burðarflaugina með gervitunglunum níu, hvort hún hefði náð út fyrir lofthjúpinn eða fallið til jarðar. Fullvissaði hann fréttamenn BBC þó um að hefði flaugin fallið til jarðar hefði hún lent á óbyggðu svæði.

Tilfinningaþrungin stund

Litið var á geimskotið í gær sem heilmikinn áfanga Breta á þeim vettvangi en metnaður stjórnenda bresku geimferðastofnunarinnar stendur til þess að koma gervitunglum, sem Bretar hafa hingað til aðeins framleitt, á braut um jörðu. Ian Annett, varastjórnarformaður stofnunarinnar, sagði við BBC í gær að önnur tilraun yrði gerð á næstu tólf mánuðum. „Við stöndum upp og reynum á nýjan leik, það er það sem einkennir okkur,“ sagði Annett.

Á þriðja þúsund áhorfendur voru viðstaddir tilraunina í gær og höfðu miðar á viðburðinn, sem selt var inn á, runnið út eins og heitar lummur. Áhorfendahópurinn tók fljótlega að þynnast eftir að kvisaðist út að eitthvað hefði farið úrskeiðis.

„Þetta var tilfinningaþrungin stund,“ sagði Melissa Thorpe, einn stjórnenda geimskotsins, „við lögðum allt í þetta svo vonbrigðin eru sár. En þetta er geimskot og við vitum að þetta er vandasamt,“ sagði Thorpe enn fremur.

BBC

The Guardian

The Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert