Aukið eftirlit með djúpfölsun

Djúpfölsun er stórt vandamál á netinu.
Djúpfölsun er stórt vandamál á netinu. AFP

Nýjar reglur tóku gildi í Kína í dag sem fela í sér aukið eftirlit með djúpfölsun. Tæknin felur í sér sífellt raunverulegri fölsun á stafrænum myndskeiðum og hefur þróunin vakið ótta í tengslum við fjölgun falsfrétta víða um heim.

Með djúpfölsun geta notendur límt andlit á annað andlit þannig að erfitt getur reynst að taka eftir muninum. Einnig er hún notuð til að leggja fólki orð í munn.

Tæknin reiðir sig á gervigreind og hefur reynst vinsæl á samfélagsmiðlum.

Kínversk yfirvöld vöruðu við því í síðasta mánuði að þjóðaröryggi og samfélagslegur stöðugleiki væru í aukinni hættu vegna djúpfölsunar og þess vegna þyrfti að setja nýjar reglur henni til höfuðs.

Samkvæmt reglunum þurfa fyrirtæki sem bjóða upp á djúpfölsunarþjónustu að verða sér úti um raunveruleg auðkenni notenda. Einnig þurfa þau að merkja allt djúpfölsunarefni rækilega til að koma í veg fyrir að almenningur ruglist á því og efni sem ekki hefur verið átt við.

mbl.is