Milljarðatap hjá hökkurum - fleiri neita að borga

Ljósmynd/Colourbox

Glæpahópar sem standa á bak við töluvárásir hafa séð 40% tekjusamdrátt á milli ára þar sem sífellt fleiri neita að greiða kröfur um lausnargjald.

Sérfræðingar hjá fyrirtækinu Chainalysis, sem sérhæfir sig í rafrænum gjaldmiðlum, segja að glæpahóparnir hafi náð að hafa að minnsta kosti 457 milljónum dala, sem nemur um 65 milljörðum kr., af fólki árið 2022. Það er 311 milljónum dala lægri fjárhæð miðað við árið á undan. Það jafngildi um 44 milljörðum kr.

Talið er að raunverulegar upphæðir séu töluvert hærri. Sérfræðingar eru þó á einu máli um að færri greiði nú glæpahópunum uppsettar kröfur. Þrátt fyrir það hefur tölvuárásum farið fjölgandi, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.

Glæpamennirnir eira engu, ráðast jafnt á ríkisstofnanir, skóla, sjúkrahús og fyrirtæki víða um heim. Þeir læsa oft viðkomandi úti þannig að þeir komist ekki inn á sín eigin tölvukerfi og heimta himinhá lausnargjöld. Oftast er farið fram á að upphæðin sé greidd í Bitcoin-rafmyntinni.

Hakkararnir hóta annars að birta opinberlega eða selja þær upplýsingar sem þeir hafa stolið.

Talið er að margir þessara glæpahópa séu staðsettir í Rússlandi. Þarlend yfirvöld neita aftur á móti öllum slíkum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert