Smástirni fór óvenju nálægt jörðu

Rauða línan sýnir spá NASA um sporbaug smástirnisins.Græna línan sýnir …
Rauða línan sýnir spá NASA um sporbaug smástirnisins.Græna línan sýnir sporbaug gervihnatta. Ljósmynd/NASA/ JPL-Caltech

Smástirni á stærð við vörubíl flaug framhjá jörðinni fyrir nokkrum dögum síðan.

Þegar það fór næst henni, á syðsta odda Suður-Ameríku, var það aðeins 3.600  kílómetrum frá yfirborði jarðar, að sögn vísindamanna sem fylgdust með ferðum þess.

Sú hæð er aðeins fjórðungur hæðarinnar þar sem gervihnettir sem jarðarbúar styðjast við eru á lofti. 

Áhugamaður lét vita 

Áhugamaðurinn Gennadiy Borisov, sem áður kom auga á halastjörnu árið 2019, lét vita af smástirninu, sem nefnist 2023 BU, um síðustu helgi.

Vísindamenn um allan heim kepptust við að komast að því hvert það stefndi og hvort rýma þyrfti einhver svæði á síðustu stundu. Fljótlega, með aðstoð kerfisins Scout hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sást að engin hætta stafaði af ferðalangnum.

„Scout útilokaði fljótt að 2023 BU gæti lent á jörðinni, en þrátt fyrir mjög fáar skoðanir gat hann samt sem áður séð að smástirnið myndi komast óvenju nálægt jörðinni,“ sagði Davide Farnocchia hjá NASA.

„Satt besta að segja þá er þetta einn fárra hluta sem hafa farið jafn nálægt jörðinni sem vitað er um.“

Skaðinn hefði orðið lítill 

Smástirnið mældist aðeins 3,5 sinnum 8,5 metrar að stærð og hefði það lent á jörðinni hefði skaðinn ekki orðið mjög mikill. Líklegt er að það hefði að stórum hluta brunnið upp á leið í gegnum lofthjúp jarðar.

Ef einhverjir loftsteinar hefðu komist til jarðar hefðu þeir verið litlir og ekki eyðilagt heilu borgirnar og valdið flóðbylgjum líkt og í kvikmyndinni Deep Impact.

Það hversu smástirnið fór nálægt jörðu mun hafa meiri áhrif á það sjálft, að sögn vísindamanna hjá NASA. Þyngdarafl jarðar mun hafa áhrif á sporbaug þess og lengja tímann sem það tekur fyrir 2023 BU að ferðast í kringum sólina, eða úr 359 dögum í 425.

mbl.is