Smitten, umferdin.is og Guðrún meðal tilnefndra

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin í Eldborgarsal …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin í Eldborgarsal Hörpu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aldrei hafa fleiri konur verið tilnefndar til verðlauna á UT-messunni, sýningu og ráðstefnu tæknifólks, sem haldin verður í Hörpu næsta föstudag. 

Sá háttur er hafður á að ekki er gefið upp hver eru tilnefnd til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský; heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.

Í þeim flokki var hægt að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað frammúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. 

Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti, en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin í Eldborgarsal Hörpu. 

Fjórir undirflokkar

Þá eru einnig veitt verðlaun í fjórum undirflokkum en þrjú eru tilnefnd í hverjum flokki. 

Netöryggis- og fræðslufyrirtækið AWAREGO var tilnefnt til verðlauna sem UT-fyrirtæki ársins, sem og vöru- og hugbúnaðarþróunarfyrrtækið Gangverk og loks Kolibri. Þessi verðlaun eru veitt því fyrirtæki sem unnið hefur sérstaklega gott starf á árinu og náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti. 

UT-Sprotinn er annar undirverðlaunaflokkur, sem veittur er fyrirtækjum sem hafa verið starfandi síðastliðin 1 til 6 ár og eru að bjóða lausnir sem hafa vakið athygli. Þau fyrirtæki sem voru tilnefnd voru Indó sparisjóður, Smitten stefnumótaforrit og Snerpa Power raforkufyrirtæki. 

Þriðji undirflokkurinn eru verðlaunin UT- Stafræn þjónusta. Þau verðlaun eru ætluð lausnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk. Þær lausnir sem tilnefndar voru að þessu sinni voru CERT-ÍS netöryggissveit, umferdin.is og smáforrit Landspítalans fyrir sjúklinga. 

Verðlaunin UT-Fjölbreytileika fyrrmynd 2022 eru veitt til að vekja athygli á því sem vel er gert og styður fjölbreytileika og gott fordæmi. Þau sem voru tilnefnd til umræddra verðlauna voru instagramsíðan Ada konur, Guðrún Valdís Jónsdóttir, leiðandi sérfræðingur í öryggis- og tæknigeiranum á Íslandi og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir sem rannsakar aðgengi jaðarhópa að stafrænum heimi með áherslu á fatlað fólk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert