Bandarískur krabbameinssjúklingur fékk írskan hreim

Maðurinn gat ekki stjórnað hreimnum og talaði með honum til …
Maðurinn gat ekki stjórnað hreimnum og talaði með honum til dauðadags. AFP

Bandarískur maður á sextugsaldri fór að þróa með sér írskan hreim eftir að hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli þrátt fyrir engin tengsl við landið. 

Maðurinn, sem er frá Norður-Karólínu, talaði með þessum einkennandi hreim til dauðadags en málið er ekki einsdæmi.

Sjaldgæft, en þekkt, heilkenni

Einkenni mannsins voru rannsökuð til hlítar í sameiginlegri skýrslu Duke-háskólans í Norður-Karólínu og Karólínsku þvagfærasjúkdómarannsóknarstofnunarinnar. 

Í henni segja höfundar skýrslunnar þetta vera í fyrsta sinn sem heilkennið, sem ber heitið Foreign accent-syndrome á ensku, greinist í þvagfærasjúkling og í þriðja sinn sem það leggst á mann með illvígt krabbamein.

„Hann hafði enga stjórn á hreimnum sem varð að lokum sífelldur,“ segja rannsakendur í skýrslunni en þar kom einnig fram að fyrstu merki hreimsins hafi heyrst á tuttugasta mánuði meðferðarinnar.

Breytinguna megi rekja til taugasjúkdóms

Enga merkjanlega breytingu á heilastarfsemi mátti sjá á þeim sneiðmyndum sem teknar voru af heila mannsins. 

Talið er að orsök breytta talandans megi rekja til paraneoplastic-taugasjúkdóms. Hann veldur því að ónæmiskerfi krabbameinssjúklinga gera atlögu að heilafrumum, vöðvum og taugakerfi sjúklingsins. 

Í umfjöllun BBC um málið er greint frá því að eitt elsta dæmið um FAS-heilkennið sé af norskri konu sem þróaði með sér þýskan hreim árið 1941 en í fréttinni er einnig rifjuð upp saga breskrar konu frá nyrðra Englandi sem þróaði með sér jamaískan hreim. 

mbl.is