„Pyntingartæki sem fólk velur að nota“

Jon Mayfield er hugmyndasmiðurinn á bak við Zwift tölvuhjólaleikinn, en …
Jon Mayfield er hugmyndasmiðurinn á bak við Zwift tölvuhjólaleikinn, en milljónir stunda reglulega hjólreiðar innandyra og notast við leikinn. mbl.is/Þorsteinn

Fyrir rúmlega áratug var hugbúnaðarforritari einn í vandræðum með að finna tíma til æfinga eftir að hann og konan hans höfðu eignast sitt fyrsta barn. Til að reyna að sameina heimilislífið og æfingar horfði hann til innihjólreiða, en lítið framboð var af góðum tæknilausnum. Hann hófst því sjálfur handa við þróun á tækni sem í dag er eitt vinsælasta hjólaforrit heims. Sú vegferð felur meðal annars í sér Íslandsheimsókn, íslenska fjárfesta, fjölda misgóðra hugmynda og tilrauna og að lokum fyrirtæki sem er þekkt hjá hjólreiðafólki um allan heim.

Jon Mayfield er meðstofnandi, yfirmaður þróunar og hugmyndasmiðurinn á bak við hið geysivinsæla hjólaforrit Zwift. Reyndar væri líklega réttara að tala um hjólaleik, því eins og Mayfield sjálfur segir var upphaflega hugmyndin að búa til eitthvað sem fengi hann til að hætta að hugsa út í kvölina og sársaukann í löppunum á löngum æfingum og þá hefur hann lagt áherslu á að leikjavæða upplifunina.

Mayfield kom og flutti fyrirlestur í Grósku fyrir áramót um þróunarferlið og hvað sé framundan í tölvuleikjum sem tengjast hreyfingu. Veitti hann mbl.is viðtal eftir fyrirlesturinn þar sem hann fór nánar út í fleiri atriði tengd leiknum og hverju sé nú unnið að. Rétt er að taka fram við lesendur að greinin getur verið nokkuð tæknileg um hjólreiðamál og leikinn sjálfan, en veitir ekki síður áhugaverða innsýn inn í þróunarferli nýsköpunarfyrirtækis sem hefur orðið að alþjóðlegum risa á sínu sviði.

Fór af stað því lausnina vantaði

Mayfield lýsti í fyrirlestri sínum hvernig hann hafi í kringum 2010 unnið mikið og vinnudagarnir hafi verið langir. Til viðbótar voru hann og konan hans með ungt barn og erfitt hafi verið að finna tíma til að ná einhverjum æfingum eins og hann hafi viljað. Á þessum tíma voru til svokallaðir hjólaþjálfarar eða hjólaþjarkar (e. trainers), þar sem hjól eru tengd við raftæki sem veitir viðspyrnu þannig að hægt sé að fá mismunandi erfiðleika. Hins vegar sagði Mayfield að lítið hafi verið um tölvuumhverfi fyrir þessa tækni, annað en einfaldar tölulegar upplýsingar um aflið (e. power) og því hafi þetta verið eins og að hjóla og horfa á vegg.

Hjólaþjálfarabúnaðurinn er mismunandi eftir framleiðendum, en hér er dæmi þar …
Hjólaþjálfarabúnaðurinn er mismunandi eftir framleiðendum, en hér er dæmi þar sem afturgjörðin er tekin af hjólinu og hjólið fest við þjálfarann. Hann tengist svo við Zwift tölvuforritið og gefur upplýsingar um þann kraft sem settur er í að hjóla. Hraði viðkomandi í tölvuumhverfinu er í samræmi við þann kraft. Meðal annars þarf að taka mið af þyngd hjólarans þegar farið er upp og niður brekkur. Ljósmynd/Glory Cycles

Niðurstaðan var að fara sína eigin leið með það að markmiði að leikjavæða hreyfinguna. Slíkt var þó engin nýlunda að hans sögn og vísaði hann m.a. til þess að á tíunda áratugnum hefði Nintendo sett fram leikjamottu sem var tengd við leikjatölvu fyrirtækisins.

Mayfield segir að á um vikutíma hafi hann náð fram upplýsingum um hraða (e. speed) og snúning pedala (e. cadence) með mælum sem hann hafi m.a. teipað við hjólið. Svo hafi mælar frá Garmin-tækjum sent upplýsingarnar í tölvuna. Aðeins síðar keypti hann svo aflmæli fyrir 1.500 Bandaríkjadali sem hann náði einnig að tengja við tölvuna. Þarna var hann kominn með allar helstu upplýsingarnar frá hjólinu inn í tölvuna, en í janúar 2011 setti hann svo saman tölvuumhverfi með grafík þar sem hægt var að hjóla um.  Kallaði hann kerfið JMTC, eða Jon M. Training coach.

Furðulegar hugmyndir í upphafi

Fyrir notendur Zwift í dag gætu hugmyndirnar á fyrstu mánuðum og árum virst nokkuð fjarstæðukenndar, en Mayfield sagði að hann hefði meðal annars haft hugmynd um að tengja tónlistarmyndbönd við kerfið þannig að ef hann væri ekki að hjóla í takti við æfingaplanið þá myndi myndbandið hætta að spilast. Þá hafi hann einnig byrjað að skoða leiðir til að stýra í leiknum, en slíkt er ekki enn orðið fastur partur af upplifuninni í leiknum, þó slíkar tilraunir hafi síðan litið dagsins ljós.

Á fundinum sýndi Jon Mayfield meðal annars frá því hvernig …
Á fundinum sýndi Jon Mayfield meðal annars frá því hvernig upphaflega hugmyndin um stýringu hafi litið út sem og fyrstu útgáfu af Zwift-leiknum. mbl.is/Þorsteinn

Árið 2012 gerði Mayfield ýmsar breytingar og bætti sjónræna framsetningu, en í kjölfarið setti hann inn póst á spjallborð áhugasamra hjólreiðamanna um þessa vinnu sína. Hann segir viðbrögðin ekki hafa staðið á sér og að margir hafi verið mjög áhugasamir og greinilegt að fleirum fannst vanta lausn á þessu sviði.

Árið eftir var hann svo byrjaðu að skoða möguleika á að tengja þessa nýju lausn sína við sýndarveruleika (e. virtual reality). Sagðist Mayfield meðal annars hafa verið með prufueintak af slíkum gleraugum og að þetta væri frábær upplifun sem ætti klárlega eftir að verða aðalmálið þegar fram líða stundir. Rifjaði hann reyndar upp að í fyrstu tilraun hafi hann dottið í gólfið í fyrstu beygju því honum hafi þótt hann þurfa að halla sér í beygjunni.

Inn í „pain world“

Samhliða þessu gerði hann tilraunir með símastýringu og setti inn fyrstu hugmyndina að „workout portal“, en notendur Zwift þekkja það vel þegar stundaðar eru skipulagðar æfingar í leiknum í dag. Með þessu geta notendur séð hvað er langt eftir af hverjum kafla í æfingunni með því að nálgast einskonar hlið. Sagði Mayfield þetta einnig ýta undir að fólk gæfi sig allt í lokakaflann. Hugmyndin að þessari framsetningu var að sögn Mayfield sú að notendur ættu að fá hugmyndina að þeir væru að fara inn í „pain world“ og svo að þeir sæju ljósið við enda ganganna þegar þeir væru að klára.

Fjöldi einstaklinga getur hjólað saman í Zwift. Þá má fylgjast …
Fjöldi einstaklinga getur hjólað saman í Zwift. Þá má fylgjast með hraða, snúningi, hjartslætti og wattatölu, en þetta er allt eitthvað sem hjólreiðafólk horfir til við æfingar. Núverandi útfærsla á „workout portal“ má sjá hér á myndinni. Skjáskot/Zwift

Á þessum tímapunkti var Mayfield tilbúinn að setja þessa vinnu sína fram að nýju og gerði það á vefsíðu sinni undir nafninu VR bike trainer. Sagði hann þar að þetta væri enn bara verkefni og ekki komið í sölu, en að hann hefði áhuga á að heyra frá áhugasömum aðilum. Þó nokkrir settu sig í samband við hann en ekkert var að smella að sögn Mayfields.

Nokkru seinna hafði svo maður að nafni Eric Min samband við Mayfield. Min þessi var þá staddur í London, en lét það ekki stöðva sig og stökk beint upp í flugvél og hélt til Kaliforníu þar sem Mayfield var, til að funda með honum.

Hjartslátturinn óvart sýndur á stressfundi

Mayfield lýsti fundinum þannig að Min hafi mætt með einum öðrum. Sjálfur hafi hann verið mjög stressaður, en farið með kynninguna. „Mér fannst ég vera grillaður,“ sagði Mayfield í gamansömum tón og bætti við að til að sýna hjartslátt hafi hann verið með slíkan mæli tengdan við forritið. Í hvert skipti sem tvímenningarnir hafi spurt hann spurninga hafi hjartslátturinn hækkað talsvert og það verið í beinni á skjánum fyrir aftan hann. Síðar hafi reyndar Min sagt honum að þeir hafi ekkert tekið eftir því.

Þótt Mayfield hafi ekki verið viss með hvernig hafi gengið var niðurstaðan sú að þeir fóru í samstarf og varð Min forstjóri meðan Mayfield sá um þróunina og hugmyndavinnu. Min vildi fyrst um sinn notast við nafnið Unreal sports, en aðrar hugmyndir voru meðal annars Open road, Radius og fleiri heiti. Að lokum ákváðum þeir þó að notast við nafnið Zwift og hefur það fest sig í sessi undanfarin ár í tengslum við hjólaþjálfun innandyra.

Þeir opnuðu skrifstofur í London og á Long beach í Kaliforníu og allskonar hugmyndavinna fór í gang. Mayfield segir að meðal annars hafi hann í byrjun árs 2014 verið kominn með tilraunaútgáfu þar sem hlaupabretti var tengt við forritið. Það var sett til hliðar, en varð seinna meir reyndar hluti af leiknum og í dag getur fólk einnig hlaupið í Zwift-heiminum, þótt hjólreiðarnar séu lang vinsælastar.

Í Zwift leiknum getur fólk sett upp æfingaplan, keppt við …
Í Zwift leiknum getur fólk sett upp æfingaplan, keppt við sjálft sig á ákveðnum leiðum eða tekið þátt í hóphjólreiðum eða fyrirfram ákveðnum keppnum þar sem keppendur koma frá öllum heimshornum.

10 þúsund notendur fyrsta daginn

Á þessum tíma hélt þróunin áfram og Min var á fullu að leita að fjárfestum. Segir Mayfield að þeir hafi meðal annars sett upp viðburði þegar þeir kynntu hugmyndina áhugasömum fjárfestum, en þó alltaf gætt að því að hafa nokkra tölvukaraktera líka sem þeir bættu við þannig að það virkaði eins og fleiri væru að nota leikinn.

Í september þetta ár var svo leikurinn formlega settur í loftið með viðburði í nokkrum verslunum Rapha. Auðvitað þurftu að vera byrjunarörðugleikar og nettenging í nokkrum verslunum var stopul. Mayfield segir hins vegar að strax hafi orðið mikill áhugi á þessu og á fyrsta sólarhringnum hafi um 10 þúsund notendur skráð sig.

Frá Jarvis-eyju til New York og Japans

Fyrsti heimurinn sem fólk gat hjólað í fékk nafnið Jarvis-eyja, en það var hringbraut sem fólk gat hjólað um. Ýmisskonar viðbætur bættust við árið 2015, meðal annars „power-ups“ sem fyrst um sinn var mjög umdeilt, en Mayfield segir að fólk hafi svo viljað meira af.

Stóri heimurinn í leiknum sem flestir notendur þekkja hvað best, Watopia, kom svo til sögunnar þetta ár og segir Mayfield að þar muni líklega næsta stækkun verða. 2016 var svo bætt við einskonar þjáflunarbúðum undir nafninu Zwift academy, en þar keppa einstaklingar víða um heim að því að ná sem bestum árangri og hefur þeim sem uppi stendur jafnvel verið boðið að taka þátt í atvinnumannaliðum í kjölfarið. Þannig er nýlegt dæmi um Ástralann Jay Vine sem náði bestum árangri fyrir tveimur árum og hefur síðan þá keppt með atvinnuliði og unnið tvær dagleiðir í Spánarhjólreiðunum, sem er meðal stærstu hjólreiðakeppna hvers árs.

Fleiri heimar bættust við árin á eftir, meðal annars London, New York og keppnisstaðir þar sem heimsmeistaramótin fóru fram. Nýjasta viðbótin er svo Makuri, en þar er horft til Japan og má m.a. finna litla útgáfu af Tokyo og svo japanska sveitarvegi. 

Prófaði að tengja róðravél

Árið 2018 voru að sögn Mayfield samtals 4,5 milljónir notenda sem höfðu stofnað reikning. Fyrirtækið hefur verið nokkuð íhaldssamt að gefa út frekari tölur um notendafjölda og virka notendur og sagðist Mayfield ekki upplýst mikið um nýrri tölur, annað en að talsverð sveifla væri í virkum notendum eftir því hvort væri vetur eða sumar. Notendur geta hins vegar alltaf séð hversu margir eru í hverjum heimi þegar þeir eru sjálfir að hjóla og ljóst er að notendum hefur fjölgað mjög mikið síðan 2018.

Eitt af því sem kom á óvart í yfirferð Mayfield var að hann hafi auk þess að prófa hlaup í leiknum prófað að tengja róðravél við hann. Sýndi hann meðal annars myndband af þessu, en tók jafnframt fram að þetta hefði aðeins verið tilraunaverkefni og væri ekki í neinni vinnslu hjá fyrirtækinu.

Birgir Már Ragnarsson hjá Novator hefur sjálfur mikinn áhuga á …
Birgir Már Ragnarsson hjá Novator hefur sjálfur mikinn áhuga á hjólreiðum. Hann situr í stjórn Zwift og hefur gert undanfarin ár. Mynd/Birgir Már Ragnarsson

Hoppaði upp í flugvél og beint til Íslands

Ekki er hægt að fara yfir sögu Zwift án þess að minnast á nokkuð stóra íslenska tengingu. Mayfield segir að á einum tímapunkti hafi hann og aðrir starfsmenn tekið eftir því að Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, hafi talað um Zwift á Twitter. Það næsta sem hann vissi var að Min var farinn upp í flugvél og af stað til Íslands. Það vatt upp á sig og þó að Hilmar hafi ekki hoppað til sem fjárfestir tengdi hann Eric við fjárfesta sem tengdust Novator, sem þá var aðaleigandi í CCP. Úr varð að Novator fjárfesti í leiknum og er stór hluthafi í dag með mann í stjórninni og Hilmar er nú ráðgjafi hjá því. Þetta var árið 2016, en ári síðar mætti Zwift með lið í Wow cyclothon. 

Meirihluti tímans fer í skipulagðar æfingar

Zwift hefur á undanförnum árum verið áberandi í allskonar umfjöllun um hjólreiðar. Ef frá er mögulega talið bandaríska æfingafyrirtækið Peloton, þar sem viðkomandi þarf að kaupa æfingahjól, en tengir ekki eigið hjól við þjálfara, þá er Zwift á toppinum þegar kemur að æfingarforritum eða –leikjum fyrir hjólreiðar. Er Zwift í dag meðal annars aðalstyrktaraðili kvennahluta Frakklandshjólreiðanna (Tour de France Femmes) og þá hefur fjöldi stórstjarna í hjólreiðum komið fyrir í auglýsingum þess.

Mayfield segir við mbl.is að um 20% af heildartíma í Zwift fari í skipulagðar keppnir. Þá fari um 45% í skipulagðar æfingar og samhjól, en restin, um 35% sé fólk sem vilji hjóla um á eigin hraða eða sé að skoða sig um. Hann segir fyrirtækið reyna að höfða til allra þessara hópa, en viðurkennir að út á við hafi líklega keppnisfyrirkomulagið verið mest í umræðunni. Það tengist hins vegar líka mikilli grósku í e-hjólreiðum þar sem lið og jafnvel landslið séu farin að keppa.

Rafhjólreiðar (e. e-cycling) hefur rutt sér til rúms, en þannig …
Rafhjólreiðar (e. e-cycling) hefur rutt sér til rúms, en þannig getur fólk keppt við aðra víðs vegar um heiminn úr stofunni eða bílskúrnum heima. Settar hafa verið upp stærri keppnir og þegar kemur að úrslitum mæta keppendur stundum á staðinn, eins og hér er gert. Ljósmynd/Zwift

Stór hringur næsta stóra breytingin

Oft hefur verið erfitt að fá að vita í hvaða átt í Zwift stefnir í þróun og er blaðamaður því spenntur að heyra frá Mayfield hvort hann geti upplýst um hans hugmyndir og næstu skref. Kemur það því nokkuð á óvart þegar hann er opinn fyrir því að upplýsa um sýn sína. Taka skal fram að rétt áður en viðtalið var tekið hafði Zwift upplýst um útgáfu á keppnisbrautum í nýjum heimi, Skotlandi.

Mayfield nefnir fyrst varðandi stækkun og fjölgun heima að nokkuð langt sé síðan almennileg stækkun hafi verið gerð við aðalheiminn, Wattopia. Segir hann að búast megi við stækkunum á árinu og að það verði „aðallega Wattopia.“ Vísar hann til þess að í þeim heimi sé lang mest um að fólk sé á láglendissvæðum og við strandirnar þar sem það byrjar jafnan. Minni virkni sé við fjöllin og á skógarsvæðum. Segist Mayfield því telja að tengja þurfi svæðin mun betur. „Ég held að við munum bæta við stórum hring í kringum allt svæðið.“ Þá nefnir hann einnig sem möguleika að bæta við Mt. Fuji klifri í Makuri heiminum.

Vill auka gagnvirkni og draga athygli frá sársauka

Eins og fyrr segir hefur sýn Mayfield alltaf verið að leikjavæða Zwift og segir hann ekki síður mikilvægt að auka gagnvirkni. „Í grunninn erum við að reyna að draga athygli fólks frá sársaukanum í fótunum og kvölinni við það að stunda æfingar,“ segir hann. „Við erum að selja pyntingartæki sem fólk velur að nota“ bætir hann hlægjandi við. Segir hann að fleiri möguleikar, eins og að stýra sjálfur, komast fram hjá hindrunum eða að þurfa að velja besta kjölsogið (e. draft) hjálpi til við þetta markmið.

Zwift hefur á undanförnum árum aðeins prófað sig áfram með sumt af þessu og meðal annars skoðað fjallahjólabrautir. Hingað til hefur þetta þó ekki notið mjög mikilla vinsælda, meðal annars þar sem stýring getur þótt nokkuð klaufaleg. Nefnir hann hugmynd um að byggja upp einhverskonar ósnortið fjall sem fólk byrjar svo að hjóla niður og með því myndar það nýjar hjólabrautir þangað til þær eru orðnar fullgerðar.

Með Zwift getur fólk sett upp hjólaaðstöðu heima hjá sér …
Með Zwift getur fólk sett upp hjólaaðstöðu heima hjá sér en samt hjólað með og jafnvel keppt við félaga sína og aðra hjólara víða um heim. Mynd/Wikipedia

Nýjung tengd stýringu og sýndarveruleika væntanleg

Þá segir hann einnig að hugmyndir hafi komið fram um opinn heim, þ.e. að fólk geti sett inn skrár með GPS leiðum og að Zwift búi til brautir sjálfkrafa út frá þeim gögnum. Með þessu væri meðal annars hægt að hjóla sína uppáhaldsleið úti og setja gögn um hana í forritið og svo hjóla sömu leið inni yfir veturinn. Sumir samkeppnisaðilar Zwift hafa þegar komið með svona lausnir, en Mayfield segir að hingað til hafi framsetningin verið undir þeim viðmiðum sem fyrirtækið horfi til. Segir hann ekkert mál að setja fram hæðarpunkta og svo tré hér og þar, en að hans hugmynd um framsetningu nái lengra en það. „En þetta verður líklega einhvern tímann hjá okkur,“ bætir hann við.

Mayfield hendir því svo fram að mögulega muni eitthvað varðandi stýringu og sýndarveruleika koma fram á næsta hálfa ári en vill að öðru leyti ekki tjá sig nánar um það.

Vill fleiri konur á Zwift

Eins og fyrr segir fer tæplega helmingur tíma fólks á Zwift í skipulagðar æfingar og segir Mayfield að þar sé vilji til að bæta mikið. Þannig muni forritið í framtíðinni mæla með æfingum fyrir fólk miðað við síðustu æfingar og hvað markmið séu í stað þess að fólk sé sjálft að verja tíma í að setja upp plan.

Staða kvenna innan hjólreiðanna og á Zwift er einnig atriði sem Mayfield nefnir og að hann vilji sjá breytingar sem dragi að fleiri konur. Nefnir hann að hægt sé að breyta persónu (e. avatar) í leiknum óháð kyni og að auka þurfi friðhelgisstillingar, en það sé eitthvað sem konur spyrji mun meira um en karlar. „Konur vilja hafa meiri stjórn á því hverjir geta fylgst með þeim eða jafnvel bara séð þær í Zwift appinu,“ segir hann. 

Breytingar á keppnisflokkakerfinu

Önnur möguleg stór breyting væri að breyta keppnisflokkum. Í dag er hægt að vera í A-D flokkum eftir getustigi, auk þess sem oft er til viðbótar sér kvennaflokkur, og getur hver og einn skráð sig í þann flokk sem hann vill. Veldur þetta því að margir skrá sig í flokk undir getu til að vera örugglega meðal efstu keppenda í þeim flokki, en á móti skemmir það upplifun þeirra sem eru að skrá sig í rétta flokka.

Mayfield segir að á þessari stundu sé unnið að stigakerfi, þannig að ef viðkomandi nær góðum árangri fer stigaskorið hans upp og ef hann tekur ekki þátt í lengri tíma lækkar það. Mætti á einhvern hátt líkja þessu við ELO-stig í skák, en Mayfield segir kerfið þó ekki alveg sambærilegt. Segir hann kerfi sem þetta eiga að bæta mikið keppnisfyrirkomulagið, m.a. fyrir konur.

Auk þess að bjóða upp á hjólaumhverfi er hlaupamöguleiki í …
Auk þess að bjóða upp á hjólaumhverfi er hlaupamöguleiki í Zwift. Skjáskot/Zwift

Að lokum nefnir Mayfield að alltaf sé verið að skoða hvort hægt sé að gera eitthvað meira skemmtilegt með öll þau gögn sem til eru um tíma hvers og eins, meðal annars varðandi stigatöflur og að bera sig saman við fyrri ár. Þá vilji hann endilega auðvelda að fólk hoppi á milli heima (e. teleport), en á því séu hins vegar nokkrir annmarkar sem flestir tengist forritinu Strava. „Við erum að vinna með Strava að þessu, en fyrir utan það vesen er þetta sniðug hugmynd,“ segir hann.

„Ég held að við höfum ekki fundið upp neitt sjálfir“

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig Mayfield horfir sjálfur á síðasta áratug og hvort hann telji sjálfan sig hafa breytt hjólreiðum eins og þær þekktust áður. „Ég held að við höfum ekki fundið upp neitt sjálfir. Við náðum hins vegar að stækka þetta og koma því til massans. Tíminn var réttur fyrir vettvang þar sem fjöldi kom saman og þetta var í raun tímasetningin til viðbótar við þróun okkar á því sem þegar var til í hjólreiðaforritum,“ segir Mayfield og virðist sjálfur ekki vilja eigna sér of mikið heiðurinn af þróun síðasta áratugar.

„98% af ástæðunni fyrir því að þetta er vinsælasti vettvangurinn er samfélagið á Zwift,“ bætir hann svo við og bendir á að frá upphafi hafi hann verið svo lánsamur að fólk með ástríðu fyrir hjólreiðum hafi komið að því að dreifa boðskapnum.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvernig samfélagið hefur alltaf komið manni á óvart. Það hafði jafnvel skipulagt viðburði og keppnir áður en við settum formlega upp slíkan möguleika í leiknum“ segir Mayfield.

Segir fyrirtækið á góðum stað og ekki á leið í uppsagnir

Mikill fjöldi leikja hefur undanfarinn áratug snúið sér að því að selja allskonar hluti í leikjunum sjálfum, sem jafnvel skipta máli upp á hvernig gengur að spila þá. Mayfield segir aðspurður að ekkert slíkt sé í gangi hjá fyrirtækinu, en að ef það yrði einhvern tímann gert myndi það ekki breyta neinu varðandi árangur í leiknum.

Þegar viðtalið var tekið fyrir áramót höfðu fréttir borist af því að fjölmörg stærri tæknifyrirtæki væru að fækka starfsfólki umtalsvert. Þannig voru stórar uppsagnahrinur hjá Twitter, Facebook, Amazon og fleirum svo dæmi séu tekin. Fyrrnefnt Strava tilkynnti einnig um uppsagnir síðar meir. Spurður hvort hann teldi uppsagnir framundan hjá fyrirtæki eins og Zwift sagði Mayfield að hann trúði því að fyrirtækið væri á góðum stað varðandi stærð í dag, engin áform væru um að draga saman seglin og mjög margt sem væri í vinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert