„Megrunarlyf“ á TikTok veldur áhyggjum

Vefsíðan TikTok er vinsæl víða um heim.
Vefsíðan TikTok er vinsæl víða um heim. AFP/Denis Charlet

Sykursýkislyfið Ozempic hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum vegna þyngdartaps sem það getur haft í för með sér. Vegna vinsælda lyfsins hefur skortur verið á því víða um heim. Þar að auki vara læknar við mögulegum aukaverkunum.

Myndskeið undir myllumerkinu #Ozempic hafa verið skoðuð næstum 600 milljón sinnum á TikTok, þar sem margir notendur segja fylgjendum sínum reglulega frá þyngdartapi sínu.

„Það að missa 40 kíló á innan við þremur mánuðum er mögulegt“ þökk sé Ozempic, sagði franskur TikTok-notandi í færslu sem hann setti inn í desember. Horft var á hana næstum 50 þúsund sinnum.

„Þetta er kraftaverk,“ bætti hann við.

Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk stendur á bak við lyfið, sem er í sprautuformi. Upphaflega var lyfið þróað og samþykkt vegna meðferðar gegn sykursýki 2.

Lyfið hægir á því hversu fljótt matur fer úr maga fólks og dregur úr matarlystinni.

Ljósmynd af sykursýkislyfinu Ozempic.
Ljósmynd af sykursýkislyfinu Ozempic. AFP/Joel Saget

Snemma árs 2021 sýndu niðurstöður rannsóknar að næstum þrír fjórðuhlutar fólks sem notaði lyfið misstu meira en 10 prósent af líkamsþyngd sinni.

Síðan þá hefur Novo Nordisk þróað lyfið Wegovy, sem er sérstaklega ætlað fyrir meðferð gegn offitu. Það var samþykkt af lyfjaeftirlitinu í Bandaríkjunum árið 2021 og í Evrópu og Bretlandi í fyrra.

Þetta hefur leitt til þess að fólk sem þjáist ekki af sykursýki hefur orðið sér úti um lyfseðla fyrir Ozempic, auk þess sem falsaðir lyfseðlar hafa verið í umferð, að sögn Jean-Luc Faillie, lyfjasérfræðings við Montpellier-háskóla í Frakklandi.

Douglas Twenefour, yfirmaður Diabetes UK, sagði á vefsíðu góðgerðasamtakanna að Ozempic „er ekki lyf fyrir fólk sem er ekki með sykursýki eða er í hættu á að fá sykursýki 2“.

AFP/Tolga Akmen

Slitrótt framboð 

Franska lyfjaeftirlitið ANSM hefur hvatt lækna til að framvísa Ozempic aðeins til sykursjúkra. Að sögn ANSM hefur ekki verið sérstök „skyndiaukning í notkun á síðustu mánuðum“. Samt sem áður hefur verið „spenna vegna framboðs“ um allan heim.

Novo Nordisk sagði við AFP að eftirspurn hefði verið meiri eftir Ozempic en búist var við. Þess vegna hefði framboðið verið slitrótt og stundum hefði lyfið ekki verið fáanlegt víðs vegar um heiminn. 

Framleiðsla á lyfinu hefur því verið aukin og eru starfsstöðvar „núna opnar 24 klukkustundir, sjö daga vikunnar“ til að brúa bilið, að sögn fyrirtækisins.

AFP/Joel Saget

Læknar segjast áhyggjufullir yfir því að fólk með sykursýki geti ekki fengið Ozempic vegna mikillar eftirspurnar frá fólki sem vill missa aukakíló.

Karine Clement, sérfræðingur í offitu hjá frönsku læknastofnuninni INSERM, sagði að þegar lyfið Wegovy verður fáanlegt sé mikilvægt að fólk fylgi því sem stendur á lyfseðlinum.

„Þetta er ekki töfralyf,“ sagði hún. „Eins og málið er alltaf varðandi offitu þá þarf að fylgja því yfirgripsmikil meðferðaráætlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert