Eldflaugarskotið mistókst í annað sinn

Fjöldi fólks fylgdist með eldflaugarskotinu.
Fjöldi fólks fylgdist með eldflaugarskotinu. AFP

Önnur tilraun Japana til að skjóta á loft H3 eldflauginni mistókst í dag með þeim afleiðingum að virkja þurfti sjálfseyðingarbúnað í loftfarinu þegar það var komið á loft.

Bilunin er talið mikið áfall fyrir japönsku geimferðastofnunina, JAXA, sem hefur státað sig af eldflauginni sem Japanir hafa sagt bæði sveigjanlega og hagkvæma.

Eftir að hafa frestað eldflaugarskotinu í nokkur ár reyndu Japanir í fyrsta skiptið í síðasta mánuði að skjóta eldflauginni á loft. Sú tilraun heppnaðist þó ekki.

Allt virtist ganga að óskum þegar að seinni tilraunin fór af stað í dag. Þegar eldflaugin var komin í 300 kílómetra hæð yfir jörðu kom þó annað á daginn. „Hraðinn virðist vera að lækka,“ heyrðist í beinni útsendingu þar sem fylgst var með eldflauginni.

Í tilkynningu frá stjórnstöðinni skömmu síðar var greint frá því að ekki hefði verið hægt að ljúka við eldflaugarskotið og að sjálfseyðingarbúnaðurinn hafi verið virkjaður.

mbl.is