Styrkur kvikasilfurs í hári barnshafandi kvenna innan marka

Alls voru 120 konur á aldrinum 20-42 ára skráðar í …
Alls voru 120 konur á aldrinum 20-42 ára skráðar í rannsóknina frá 6. maí til 28. september 2021 og luku 106 konur við rannsóknina (88%) með því að gefa hársýni við lok meðgöngu. Allir þátttakendur tilgreindu upplýsingar um aldur og meðgöngulengd á skráningarblaði en aðrar upplýsingar um þátttakendur við upphaf rannsóknar fengust með spurningalista sem 101 þátttakandi svaraði (84%). Ljósmynd/Colourbox

Styrkur kvikasilfurs í hári barnshafandi kvenna á Íslandi er innan þeirra heilsuverndarmarka sem gefin hafa verið út í Evrópu. Þetta eru niðurstöður nýlegrar rannsóknar meðal 120 barnshafandi kvenna á höfuðborgarsvæðinu, sem fjallað er um í Læknablaðinu. 

Tilgangur rannsóknar var að kanna styrk kvikasilfurs í hári hjá barnshafandi konum á höfuðborgarsvæðinu og tengsl hans við fiskneyslu, ásamt því að leggja mat á það hvort núverandi ráðleggingar um fiskneyslu barnshafandi kvenna þarfnist endurskoðunar.

Skýr tengsl milli útsetningar móður fyrir kvikasilfri á meðgöngu og taugaþroska fósturs

Fram kemur í umfjöllun Læknablaðsins, að rannsóknir frá Færeyjum hafi sýnt fram á skýr tengsl milli útsetningar móður fyrir kvikasilfri á meðgöngu og taugaþroska fósturs og hafa Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (US-EPA) lagt til mismunandi heilsuverndarmörk fyrir neyslu kvikasilfurs. Margar þjóðir hafa gefið út ráðleggingar um fiskneyslu barnshafandi kvenna og framkvæma reglulegt eftirlit með kvikasilfri í lífsýnum. Tekið er fram að slíkar mælingar hafi verið gerðar hér á landi.

Fram kemur að gerð hafi verið slembidreifð íhlutandi rannsókn meðal 120 barnshafandi kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Þá segir að íhlutunarhópurinn hafi fengið ítarlega fræðslu um fiskneyslu á meðgöngu en viðmiðunarhópurinn almenna fræðslu hjá mæðravernd. Styrkur kvikasilfurs í hári var mældur við upphaf og lok rannsóknar, hann borinn saman við heilsuverndarmörk og tengsl við fiskneyslu voru metin.

Rétt að skerpa á ráðleggingum varðandi neyslu mengaðra tegunda

„Meðalstyrkur (staðalfrávik) kvikasilfurs í hári við upphaf rannsóknar var 0,48 μg/g (0,33) sem er undir þeim styrk í hári sem heilsuverndarmörk EFSA byggja á (1,8 μg/g) en 5% þátttakanda var yfir þeim styrk í hári sem heilsuverndarmörk US-EPA byggja á (1,1 μg/g). Skýr tengsl (p<0,001) sáust milli fiskneyslu og styrks kvikasilfurs í hári sem var að meðaltali 0,25 mg/g hjá þeim sem borðuðu fisk ≤3/mánuði en 0,80 mg/g hjá þeim sem borðuðu fisk 3-4 sinnum í viku. Þær konur sem sögðust hafa borðað hákarl nýlega (3%) mældust með tiltölulega há gildi. Íhlutunin leiddi ekki til marktækrar breytingar á styrk kvikasilfurs við lok rannsóknar,“ segir í niðurstöðukafla rannsóknarinnar. 

Sú ályktun er dregin að styrkur kvikasilfurs í hári barnshafandi kvenna sé innan þeirra heilsuverndarmarka sem gefin hafi verið út í Evrópu. Það væri þó rétt að skerpa enn frekar á ráðleggingum varðandi neyslu mengaðra tegunda eins og hákarls.

Nánari umfjöllun er að finna í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. 

mbl.is