Gervigreindin fann upp nýtt spil

Sumplete er leikur sem er að mestu leyti hannaður af …
Sumplete er leikur sem er að mestu leyti hannaður af gervigreind. Skjáskot/Sumplete

Þrautaspilið Sumplete er nýtt spil sem er nánast alfarið búið til af gervigreindarforritinu ChatGPT, sem hefur verið til mikillar umræðu undanfarna mánuði. Frá þessu greinir Gizmodo.

Spilið varð til við það að notandi að nafninu Daniel Tait bað forritið um að hanna glænýtt spil sem líktist Súdókú.

Gervigreindin fann upp spilið eftir nokkrar tilraunir og forritaði spilanlega útgáfu af því í javascript og HTML á innan við hálfri mínútu. Gervigreindin fann jafnvel sjálf upp nafnið Sumplete.

Tait tók síðan forritið sem gervigreindin fann upp og hannaði vefsíðu í kringum það auk þess að pússa það hér og þar til þess að gera það auðveldara að nota það.

Spilið líkist Súdókú í útliti að nokkru leyti en markmið spilanna eru ólík. Hver dálkur í töflunni inniheldur tölu og við lok hverrar línu og hvers dálks eru einnig tölur. Til að vinna þrautina þarf að eyða tölum í hverjum reit þannig að summan af þeim tölum sem eftir sé sú sama og númerið fyrir utan hverja röð og dálk.

Spilið má nálgast hér.

mbl.is