Niðurdæling hafin á Nesjavöllum

Nökkvi Andersen verkefnastjóri við nýju tilraunastöðina. Verkefnið er fjármagnað af …
Nökkvi Andersen verkefnastjóri við nýju tilraunastöðina. Verkefnið er fjármagnað af GECO-verkefni Evrópusambandsins. Ljósmynd/Gunnar Freyr

Niðurdæling á koldíoxíði (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) frá Nesjavallavirkjun er hafin eftir að ný tilraunastöð Carbfix til kolefnisföngunar og -förgunar við virkjun Orku náttúrunnar á Nesjavöllum var tekin í notkun.

Fram kemur í tilkynningu að stöðin sé afrakstur umfangsmikillar þróunar- og rannsóknarvinnu. Tilraunastöðin sem var þróuð og smíðuð fyrir verkefnið er færanleg. Það opnar möguleika á nýta hana í önnur tilraunaverkefni á vegum Carbfix síðar meir.

Eitt af markmiðum verkefnisins er að leggja grunn að fullri hreinsun á CO2 og H2S frá Nesjavallavirkjun síðar meir með varanlegri hreinsistöð. Áætlað er að hún verði komin í notkun árið 2030, ásamt því að auka skilvirkni Carbfix-tækninnar.

Nýja tilraunastöðin sem nú hefur verið tekin í notkun var hönnuð og byggð í samvinnu við Mannvit, Verkís og Héðinn.

Nýja tilraunastöðin.
Nýja tilraunastöðin. Ljósmynd/Gunnar Freyr

Fram kemur í tilkynningunni að verkefnið sé þýðingarmikið skref til minnka enn frekar gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum, sem er eitt af lykilverkefnum í loftslagsaðgerðum Íslands.

Um 3.000 tonn af CO2 á ári

Nýja tilraunastöð Carbfix á Nesjavöllum fangar allt H2S sem í gegnum hana fer og allt að 98% af CO2. Hún afkastar um 3.000 tonnum af CO2 á ári og um 1.000 tonnum af H2S, sem er u.þ.b. 20% af losun virkjunarinnar.

CO2 er leyst í vatni í stöðinni og er gashlöðnu vatni dælt niður í basaltberglög um niðurdælingarholur. Þegar niðurdælingarvökvinn flæðir út í basaltberggrunninn leysast málmar á borð við kalsíum, magnesíum og járn úr basaltinu, sem ganga í efnasamband við CO2 og falla út sem karbónatsteindir.

Stoltur af teyminu

„Ég er mjög stoltur af Carbfix-teyminu, samstarfsaðilum okkar hjá Orku náttúrunnar og öðrum, fyrir þá miklu vinnu og þrautseigju sem einkenndu verkefnið,“ segir Nökkvi Andersen verkefnastjóri í tilkynningunni.

„Þetta var krefjandi en gefandi vinna og árangurinn endurspeglar góða samvinnu allra sem að verkinu komu. Þetta er stór áfangi fyrir okkur, ekki bara hvað varðar fótspor Nesjavallavirkjunar heldur ekki síður fyrir frekari innleiðingu Carbfix tækninnar í framtíðinni.“

Sýnir heiminum að þetta er hægt

„Orka náttúrunnar hefur tekið ákvörðun um að vera með sporlausa framleiðslu fyrir árið 2030 og það verkefni höfum við unnið í samstarfi við Carbfix,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON. „Samstarfið hefur gengið afskaplega vel og allt stefnir í að Hellisheiðarvirkjun verði fyrsta sporlausa jarðvarmavirkjun í heimi fyrir árið 2025 og síðan Nesjavallavirkjun fyrir árið 2030. Við erum fyrst til þess að taka slíka ákvörðun og þetta samstarf sýnir heiminum öllum að þetta er hægt – og það er einmitt það sem til þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert