Netöryggismál setið á hakanum of lengi

Ráðstefna Syndis um netöryggi fyrirtækja í heimi sívaxandi netárása. Áslaug …
Ráðstefna Syndis um netöryggi fyrirtækja í heimi sívaxandi netárása. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra segir mikilvægt að netöryggismál á Íslandi séu efld til þess landið mælist betra í alþjóðlegum samanburði og virðist meira óaðlaðandi fyrir netþrjóta.

Netöryggisáætlun stjórnvalda til ársins 2027 leggur áherslu á öruggt netumhverfi, öryggi barna á netinu og áfallaþol mikilvægra innviða í heimi sem verður sífellt háðari netinu.

Árleg öryggisráðstefna Syndis var haldin á Grand hótel í dag. Meðal ræðumanna eru hinir ýmsu sérfræðingar í netöryggismálum. Þá kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggismálum.

Mikilvægt að endurskipueggja viðbrögð lögreglu

Aðgerðaáætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir 64 fjölbreyttum aðgerðum í netöyggismálum á næstu árum. Lögð er áhersla á að bæta viðbrögð lögreglu og réttarvörslukerfisins í netöryggismálum, fræða almenning um netöryggismál, bæta námsframboð í netöryggisfræðum og bæta viðbragðsgetu stjórnvalda og fyrirtækja þegar kemur að netárásum.

Áslaug nefnir að aðeins sex prósent þeirra sem verði fyrir netárásum tilkynni þær til lögreglu. Ráðuneytið sé nú komið í frekara samstarf við ríkislögreglustjóra til þess til dæmis að ráðast í aðgerðir sem verndi börn á netinu. Mikilvægt sé einnig að innviðir löggæsluaðila séu byggðir upp til þess að endurskipuleggja viðbrögð lögreglu.

Einnig sé verið að vinna að fræðsluátaki fyrir grunnskóla, foreldra og kennara í netöryggismálum sem muni hefjast í haust.

Ísland tekur þátt í samhæfðri æfingu í fyrsta sinn

Þá muni Ísland nú í fyrsta sinn taka þátt í netöryggisæfingu NATO, Locket Shield, sem haldin verður í Eistlandi. Tilgangur æfingarinnar er að bæta þekkingu um það hvernig eigi að bregðast við netárásum og undirbúa stjórnvöld og fyrirtæki fyrir slíkar aðstæður. Ráðherra nefnir að netöryggi hafi hingað til ekki fengið næga athygli en segir stjórnvöld nú ætla að gera betur.

Þá segist hún trúa því að Ísland geti staðið mjög framarlega í netöryggi og muni færast ofar á lista yfir öruggustu ríki heims hvað það varðar á næstunni.

„Forsenda þess að við náum markmiðum stefnunnar er að styrkja og formgera aukið samstarf. Þetta snertir okkur öll og það mega ekki vera veikir hlekkir þegar kemur að netöryggi,“ sagði Áslaug.

Frekari upplýsingar um áætlanir stjórnvalda í netöryggismálum má sjá með því að smella hér.

mbl.is