Tíminn útrunninn hjá TikTok?

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, við upphaf fundarins í dag.
Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, við upphaf fundarins í dag. AFP

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, segir að hluti af þeim gögnum sem fyrirtækið safni í Bandaríkjunum sé enn aðgengilegt starfsfólki þess í Kína. Þetta sagði Chew sem situr fyrir svörum bandarískrar þingnefndar í dag. 

Nefndin rannsakar nú hvort fyrirtækið og forritið vinsæla tengist með beinum hætti stjórnvöldum í Kína. 

„Það er enn eitthvað af gögnum í dag sem við þurfum að eyða,“ sagði Chew við þingmenn orku- og viðskiptanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann sagði enn fremur að fyrirtækið myndi fjarlægja öll bandarísk gögn þannig að kínversk stjórnvöld komist ekki yfir þau. 

Hart var sótt að Chew á fundinum í dag sem þarf að svara fyrir áframhaldandi tilvist TikTok í Bandaríkjunum. TikTok er gríðarlega vinsælt snjallsímaforrit þar sem hægt er að búa til að deila myndskeiðum. 

AFP

Fullir efasemda

Bandarískir þingmenn eru fullir efasemda um tilgang og ágæti forritsins sem safnar gríðarlega miklum upplýsingum úr farsímum. En því hefur verið haldið fram að bein tengsl séu á milli fyrirtækisins og kínverskra yfirvalda, og því haldið fram að forritið sé notað til að njósna um bandaríska ríkisborgara eða notað í einhverskonar áróðri.

Chew, sem er fertugur, þarf að sitja fyrir svörum í nokkrar klukkustundir. TikTok er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance. 

Fram hefur komið að stjórnvöld m.a. í Bandaríkjunum, Kanada og í Bretlandi hafi krafið opinbera starfsmenn um að eyða forritinu úr símum sínum. 

Greint var frá því í dag að breska þingið hafi bæst í hóp þeirra sem leggi nú blátt bann við notkun á TikTok. 

Bandarísk stjórnvöld hafa sett fyrirtækinu afarkosti. Ef fyrirtækið segir ekki skilið við kínversku eigendurna verði það bannað. 

Hart var sótt að Shou Zi Chew, forstjóra TikTok, á …
Hart var sótt að Shou Zi Chew, forstjóra TikTok, á fundinum. AFP

150 milljónir notenda í Bandaríkjunum

Chew sagði í upphafi máls síns að ByteDance væri hvorki í eigu né stjórnað af kínverskum stjórnvöldum. Um væri að ræða fyrirtæki í einkaeigu. Hann sagði að 60% væri í eigu alþjóðlegra fagfjárfesta, 20% í eigu stofnandans og 20% í eigu starfsmanna víða um heim. 

Chew sagði að það væri nauðsynlegt að reglur varðandi öll tæknifyrirtæki yrðu að vera gegnsæjar. Kjarni vandamálsins snerist ekki um eignarhaldið. 

Verði samþykkt að banna fyrirtækið þá yrði það fordæmalaus aðgerð gegn fjölmiðlafyrirtæki af hálfu bandarískra stjórnvalda. Þar með yrði klippt á 150 milljónir notenda. TikTok nýtur sérstaklega mikilla vinsælda meðal ungs fólks vestra og er næst á eftir Netflix sem sá miðill sem flestir nota til að horfa á efni sér til skemmtunar á netinu. 

Þrátt fyrir að lofa öllu fögru í upphafi fundarins í dag, þá er útlit fyrir að bandarísk yfirvöld séu þegar búin að taka ákvörðun um næstu skref. Nokkur lagafrumvörp eru nú til meðferðar, þar á meðal eitt sem nýtur stuðnings Hvíta hússins í Washington, sem myndi leiða til þess að forritið verði alfarið bannað. 

Cathy McMorris Rodgers er formaður nefndarinnar.
Cathy McMorris Rodgers er formaður nefndarinnar. AFP

Nei takk

Cathy McMorris Rodgers, formaður bandarísku þingnefndarinnar, segir að TikTok hafi ítrekað kosið að fara þá leið að ná meiri stjórn, ýta undir meira eftirlit og hafa áhrif á notendur. Hún er þeirrar skoðunar að banna eigi TikTok í Bandaríkjunum. 

Hún sagði enn fremur, að þær 150 milljónir Bandaríkjamanna sem notaði TikTok séu bandarískir ríkisborgarar sem kommúnistastjórnin í Kína geti safnað viðkvæmum upplýsingum um og stjórnað því sem fólk sjái, heyri og trúi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert