Heljarmikið smástirni fer hjá á morgun

2023 DZ2 virðist örsmátt gegnum stjörnusjónaukann en er einhvers staðar …
2023 DZ2 virðist örsmátt gegnum stjörnusjónaukann en er einhvers staðar á milli 40 og 90 metrar í þvermál og gæti hæglega jafnað borg við jörðu. Ljósmynd/Gianluca Masi/The Virtual Telescope Project

Smástirnið 2023 DZ2, sem stjarnvísindamenn komu auga á fyrir mánuði, þýtur hjá jörðinni á morgun, laugardag, í aðeins 68.000 kílómetra fjarlægð og fer þar með á milli brauta jarðar og tungls en fjarlægðin þar á milli er að meðaltali rúmir 380.000 kílómetrar.

2023 DZ2 er eitthvað á milli 40 og 90 metrar að þvermáli að mati vísindanna og segir bandaríska geimvísindastofnunin NASA afar sjaldgæft að svo stór smástirni komi svo nálægt jörðu sem nú verður. Fjarlægðin á morgun verður ekki meiri en svo að vel má greina stirnið gegnum venjulega sjónauka og litla stjörnusjónauka.

Einstakt tækifæri fyrir lærða sem leika

Að sögn Richard Moissl, talsmanns evrópsku geimvísindastofnunarinnar, gæti smástirni af þessari stærð hæglega jafnað heila borg við jörðu og kveður hann þessa miklu nálægð stórkostlegt tækifæri fyrir áhugamenn um stjörnuskoðun.

NASA tekur í sama streng varðandi einstakt tækifæri, en það sé ekki síður frá sjónarhóli vísindamanna sem nú geti öðlast fróðleik sem gagnist þeim við að meta aðstæður komi sú staða upp að smástirni af háskalegri stærð stefni beint á jörðina.

The Virtual Telescope Project mun standa fyrir vefútsendingu af ferð 2023 DZ2 en þar er ekki um einstaka heimsókn að ræða þar sem reiknað er með að smástirnið snúi aftur í átt að braut jarðar árið 2026. Þó telst heldur engin hætta í það sinnið á að til árekstrar komi.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert