Stefnir í sjónarspil á himninum í kvöld

Bæði stefnir í stefnumót Venusar og tunglsins og björt og …
Bæði stefnir í stefnumót Venusar og tunglsins og björt og litrík norðurljós. mbl.is/Kristófer Liljar

Fögur sjón verður á vesturhimninum í kvöld þegar sjá má „himneskt stefnumót“ vaxandi tungls og Venusar. Ekki nóg með það, heldur stefnir einnig í björt og litrík norðurljós.

„Það gerist núna í hverjum mánuði fram á sumar, að tunglið og Venus eiga „himneskt stefnumót“ ef svo má segja, þar sem þau eru svífandi rétt hjá hvoru öðru á himninum frá okkur séð,“ segir Sævar Helgi Bragason, eða „Stjörnu-Sævar“ eins og hann er alla jafna kallaður.

Stjörnu-Sævar.
Stjörnu-Sævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alveg gullfallegt og ég mæli heilshugar með því að fólk gjói augunum að því, ekki nokkur spurning,“ bætir hann við og nefnir að þar sem tunglið er einn mánuð á leið sinni í kring um jörðina þá endurtekur stefnumótið sig mánaðarlega – aftur 23. apríl og aftur 23. maí.

„Þannig við fáum tvö tækifæri í viðbót til þess að berja þetta augum, ef við sjáum þetta ekki í kvöld,“ segir Sævar.

Skýringarmynd sýnir stefnumótið.
Skýringarmynd sýnir stefnumótið. Stjörnu-Sævar

Væn gusa frá sólinni

Sævar segir Venus óvenju skæra, þar sem hún sé nálægt jörðu og spegli einnig stórum hluta af því sólarljósi sem fellur á hana. 

„Þannig hún verður frekar björt á himninum hvort sem hún sést sem kvöldstjarna eða morgunstjarna.“

Í ofanálag segir Sævar að allar líkur séu á fögrum norðurljósum.

„Það er heiðskírt í kvöld og við vorum inni í vænni gusu frá sólinni nú í gærkvöldi og í nótt, mjög kröftugur stormur í nótt, svo það má búast við mjög litríkum og glæsilegum norðurljósum í kvöld, nánast alveg frá því að sólin sest,“ bætir Sævar við að lokum.

„Þannig það er fullt að sjá í kvöld.“

Bloggfærsla Sævars um málið.

mbl.is