Einn í heiminum

Focal ber höfuð og herðar yfir önnur blátannartengd heyrnartól á …
Focal ber höfuð og herðar yfir önnur blátannartengd heyrnartól á markaðinum. Focal

Ég stend mig að því að hlusta ekki nógu mikið á tónlist, og lifi samt á gullöld þar sem streyma má öllum verkum gömlu og nýju meistaranna beint í farsímann í mestu gæðum. Undanfarin ár hef ég freistað þess, jafnt og þétt, að bæta meiri tónlist í lífið, og um leið lagt mig fram við að læra hvað það er sem aðskilur bestu heyrnartólin og hljómtækin frá öllum hinum. Ég virðist nefnilega eiga það til að fara á bólakaf ofan í lífsins lystisemdir þegar ég uppgötva þær á annað borð og sætti mig þá sjaldan við neitt annað en það besta.

Í ágúst síðastliðnum veitti ég lesendum smá innsýn inn í þetta áhugamál í pistli um Mu-So-hátalarann frá breska framleiðandanum Naim, en um er að ræða einkar notendavænan hágæðahátalara sniðinn að þeim nýja heimi sem streymisveiturnar hafa opnað. Nú er röðin komin að nýjustu heyrnartólunum frá Focal, frönsku systurfyrirtæki Naim.

Ég hef lengi svipast um eftir góðum heyrnartólum en ekki fundið einmitt það sem ég leitaði að: virka hljóðeinangrun, mestu mögulegu hljómgæði, hljóðnema til að geta tekið viðtöl og blátannartengingu til að auka notagildið. Átti það við um öll þau heyrnartól sem ég skoðaði að alltaf þurfti að fórna einhverju: hljómgæðunum, hljóðeinangruninni, hljóðnemanum eða snúruleysinu.

Stóru hljóðdempandi heyrnartólin, eins og þau sem Apple og Bose framleiða, eru ágæt en komast ekki alveg á toppinn hvað varðar hljómgæðin. Gömlu góðu „skelja“heyrnartólin sem framleidd eru með hörðustu tónlistarunnendur í huga skortir hins vegar virka hljóðeinangrun og eru hugsuð til notkunar heima í stofu frekar en á ferðinni og þurfa að vera tengd við hljómtæki heimilisins með þykkri snúru. Nettu tappaheyrnartólin, eins og iPod frá Apple, eru mikil tækniundur en það rúmast aðeins svo og svo mikið hljóð í þeim og þar að auki finnst mér ekkert sérstaklega gott að hafa litlu tappana í eyrunum lengi.

Gerðist það loks í október að Focal svipti hulunni af Bathys-heyrnartólunum sem haka við öll boxin.

Focal þarf ekki að kynna fyrir unnendum hágæðahljómtækja. Á tíunda áratugnum braust þetta félag með miklum látum inn á hljómtækjamarkaðinn og er fyrir löngu komið í hóp með þeim allra bestu. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í þróun nýrrar hátalaratækni og í heyrnartólunum hefur Focal skipað sér í fremstu röð og þykja Utopia-snúruheyrnartólin eiga sér fáa jafningja, og bjóða upp á einstaklega hreina og lifandi tónlistarupplifun.

Bað ég Focal um að fá að prófa Bathys í nokkra mánuði og var það auðsótt enda er ég búsettur í París og vel hugsað um græjublaðamenn í Evrópu.

Hönnunin er látlaus og efnisvalið vandað.
Hönnunin er látlaus og efnisvalið vandað. Focal

Undir Eiffelturninum með Stromae

Til að gera langa sögu stutta hef ég varla tekið Bathys-heyrnartólin af mér frá því ég fékk þau í hendurnar og hefur það verið algjör unaður að rölta um götur Parísar í minni eigin tónlistarveröld – einn í heiminum með félögum á borð við Nínu Simone, Camille Saint-Saëns, Stromae, Lynyrd Skynyrd eða Boston. Það hefur meira að segja verið ánægjulegt að ferðast með skröltandi og skítugum neðanjarðarlestum borgarinnar, því þótt hljóðdeyfingin feli ekki öll umhverfishljóð þá heyrist skruðningurinn ekki yfir tónlistina.

Er það samróma álit heyrnartólarýnenda að hvað hljómgæðin snertir sé Bathys aðeins hársbreidd frá fullkomnustu og dýrustu snúruheyrnartólum, en streyma má tónlist í mjög hárri upplausn yfir blátannartengingu heyrnartólanna, sem ég gerði oftast, eða tengja þau beint við símann með USB-C-kapli til að streyma tónlistinni „hrátt“ og tekur þá innbyggður flaumgervill (e. DAC) við gögnunum. Einnig má tengja heyrnartólin við hljómtæki með venjulegri snúru af mjórri gerðinni, ekki það að nokkur maður þurfi þess á tímum Spotify og Tidal. Þá má nota heyrnartólin til að tala við Google Assistant, fyrir þá sem þess þurfa.

Eru Bathys-heyrnartólin notendavæn með takka fyrir allar helstu stillingar, en gera má minniháttar fínstillingar í snjallsímaforriti Focal og þótti mér ágætt að eiga við hljóðið til að bæta nokkrum deísibelum við bassatónsviðið. Þá má nota snjallforritið til að slökkva á hljóðdeyfingunni eða velja millistillingu sem hleypir sumum umhverfishljóðum inn.

Hönnun heyrnartólanna er tiltölulega látlaus, en á miðri skelinni, bæði vinstra og hægra megin, má finna Focal-merkið með baklýsingu. Slökkva má á ljósinu í snjallsímaforritinu, sem ég kaus að gera til að vera ekki of áberandi á götum úti. Var samt eftir heyrnartólunum tekið og sést langar leiðir að um dýra gæðavöru er að ræða.

Askjan sem fylgir heyrnartólunum er hentug til að verja þau …
Askjan sem fylgir heyrnartólunum er hentug til að verja þau gegn hnjaski á ferðalögum.

Virka hljóðeinangrunin er ágæt þótt hún hleypi örlitlum votti af umhverfishljóðum inn – með tónlist í gangi hverfur allur hávaði úr umhverfinu og ekkert sem truflar. Þá eru Bathys-heyrnartólin smíðuð úr laufléttum og sterkum magnesíummálmi og áli, og fóðruð með dúnmjúku leðri, og eftir mikla notkun og hnjask hafa þau ekki látið á sjá. Með í pakkanum fylgir hörð askja sem hentar til að verja heyrnartólin s.s. á ferðalögum.

Vitaskuld sitja heyrnartólin afskaplega vel á höfði og eyrum; meira að segja á Íslendingi með höfuð af stærstu gerð og tiltölulega stór og útstæð eyru.

Var enginn vandi að nota heyrnartólin til að hringja símtöl og í viðtölum fyrir blaðið heyrðist vel í mér á hinum enda línunnar. Að hlaða heyrnartólin tekur heldur enga stund, raunar bara örfáar mínútur ef notuð er hraðhleðsluinnstunga líkt og seld er með öllum betri snjallsímum í dag. Rafhlaðan endist lengi og þurfti ég sjaldan að hlaða heyrnartólin.

Ef finna má einn veikleika á Bathys er hann sá að þegar tónlist er spiluð mjög hátt lekur hún út í umhverfið sem skrifstofufólk ætti að hafa hugfast ef ske kynni að ómurinn valdi fólkinu á næstu básum ama. Á löngum göngutúrum gat mér líka orðið svolítið heitt um eyrun, en ekki þannig að kalla mætti vandamál.

Annar galli er ef til vill sá að svona góð heyrnartól geta orðið til þess að maður kemur ekki neinu í verk, heldur liggur bara með heimilishundinum uppi í rúmi eða sófa dægrin löng og nýtur þess að hlusta á fölskvalausan bassa, kristaltæra simbala eða dúnmjúka raftóna sem kitla eyrun.

Bathys-heyrnartólin koma á íslenska markaðinn innan skamms og verða seld hjá Hljóðfærahúsinu á um 125.000 kr. Gæti sumum þótt verðið hátt en það á við um þessa vöru að kaupandinn fær nákvæmlega það sem hann borgar fyrir.

Greinin birtist upphaflega í dálkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum 22. mars síðastliðinn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert