Fréttir skrifaðar með gervigreind

Samsett mynd

Frétt þessi er aprílgabb mbl.is

Umræðan um gervigreind hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum undanfarið og nokkuð óvænt eru Íslendingar komnir mjög framarlega í þeim efnum eftir að bandaríska gervigreindarfyrirtækið OpenAI valdi íslensku, fyrst tungumála að ensku frátalinni, í þróunarfasa nýjustu útgáfu gervigreindar-mállíkansins GPT-4. Hefur sú þróunarvinna verið unnin með íslenska máltæknifyrirtækinu Miðeind.

mbl.is hóf fyrr í vetur samstarf með Miðeind með það í huga að aðlaga íslenska gervigreindar-mállíkanið að fréttaskrifum og tengja það við fréttakerfi mbl.is, enda miklir möguleikar þar í boði, sérstaklega varðandi að ná hratt og vel fréttum af lifandi viðburðum eða atburðum sem vindur áfram.

Vinningar í boði fyrir að finna gervigreindarfréttir

Síðasta sólarhring hafa þrjár mismunandi fréttir verið settar í loftið á mbl.is þar sem notast var við gervigreind. Um stórt skref er að ræða í íslenskri fréttasögu og vill mbl.is leyfa lesendum að spreyta sig á því hvort þeir geti sjálfir áttað sig á því um hvaða fréttir er að ræða. Hægt er að skila inn svörum á þessari síðu, en fimm verðlaunahafar verða dregnir út í lok dags og munu þeir hljóta stóra páskaeggjakörfu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi Miðeindar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi Miðeindar. mbl.is/Hallur Már

Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og eigandi Miðeindar, segir gervigreindina orðna nokkuð þróaða og að nú sé tími til að sjá hvort almenningur geti áttað sig á muninum milli manngerðra texta og þeirra sem gervigreind setur fram.

„Eins og hefur komið fram í fréttum vorum við með 40 manna hóp sjálfboðaliða að þjálfa líkanið aðallega í að skilja íslensku, skilja íslenskar spurningar og svara þeim rétt. En eins og fólk hefur kannski tekið eftir sem hefur verið að nota Chat GPT og GPT-4 þá er kerfið ekkert endilega fullkomið í að búa til nýjan texta. Nú erum við að vinna í því að ráða bót á því í samstarfi við OpenAI. Við höfum verið að  að láta þjálfa líkanið á meiri texta þannig að það á að vera orðið býsna gott að búa til texta á íslensku,“ segir Vilhjálmur.

„Vildum gjarnan fá álit fólks

„Okkur datt svo í hug að prófa smá lýðvirkjunarverkefni, eða „crowdsourcing“. Textarnir eru orðnir nokkuð góðir, en það er bara okkar eigin tilfinning og við vildum gjarnan fá álit fólks á því hvort þetta sé ekki að verða nokkuð gott?“ bætir hann við.

En hvað á fólk að hafa í huga þegar það leitar að texta sem er skrifaður af gervigreind? „Það er aðallega ef orðalagið á íslensku er stirt, orðavalið ekki alveg eðlilegt eða flæðið í textanum kannski ekki náttúrulegt. Það eru svoleiðis hlutir. Svo getur verið að það gægist fram enska eða jafnvel Norðurlandamálin. Við viljum auðvitað helst að þetta sé hrein og tær íslenska eins og fólk á að venjast í vönduðum miðli,“ segir Vilhjálmur.

Í ljósi þessa áfanga er eðlilegt að spyrja sig hvenær búast megi við að stór hluti frétta verði skrifaður með þessum hætti. „Þetta er náttúrulega  hjálpartæki sem er alveg viðbúið að blaðamenn fari að nýta sér í meira mæli. Þeir gætu þá einfaldlega skrifað „skrifaðu frétt um“ og svo koma helstu efnisatriði og svo er bara ýtt á takka og þá verður til fréttagrein, t.d. í einhverjum ákveðnum stíl,“ segir Vilhjálmur.  „Ef þú vilt frétt í stíl Jakobs Bjarnars Grétarssonar þá getur kerfið skrifað slíka frétt,“ segir hann og hlær létt.

mbl.is