Ástarleit Rússa verður erfiðari í sumar

Tinder er vinsælt stefnumótaforrit sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins …
Tinder er vinsælt stefnumótaforrit sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins Match Group. AFP

Einhleypir Rússar munu margir eiga í enn frekari erfiðleikum við að finna ástina í sumar þar sem Tinder, stefnumótaforritið sívinsæla, verður brátt ekki aðgengilegt í landinu.

Tinder er í eigu bandaríska fyrirtækisins Match Group, sem tilkynnti í dag að það myndi loka fyrir aðgang Rússa að forritinu hinn 30. júní næstkomandi. Er ákvörðunin tekin þar sem fyrirtækið sé „staðráðið í að vernda mannréttindi“, líkt og sagði í tilkynningu frá Tinder.

Tinder fylgir þar með í fótspor annarra tæknifyrirtækja, sem lokuðu fyrir þjónustu sína í fyrra í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu. Á meðal þeirra eru Spotify og Netflix.

Match Group greindi frá ákvörðun sinni í samantekt um hvernig fyrirtækið hefur staðið sig við að uppfylla markmið um umhverfismál, mannréttindi og góða stjórnarhætti.

„Okkar vörumerki eru að gera ráðstafanir til að takmarka aðgang að þjónustu þeirra í Rússlandi og munu ljúka afturköllun sinni af rússneska markaðnum fyrir 30. júní 2023,“ segir í skýrslunni.

Tilkynningin frá Tinder kemur einnig á sama tíma og rússnesk yfirvöld hafa verið að herða regluverk sitt varðandi tæknigeirann.

Á sama tíma og vestræn fyrirtæki hafa sett í lás í landinu varð viðvera kínverskra fyrirtækja á rússneskum markaði aukin. Rússar hafa einnig verið að styðja við innlenda tæknigeirann á undanförnum árum til þess að fjarlægja sig enn frekar frá Vesturlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert