Samsung bannar starfsfólki notkun ChatGPT

Samsung hefur bannað notkun ChatGPT í vinnutölvum í eigu fyrirtækisins.
Samsung hefur bannað notkun ChatGPT í vinnutölvum í eigu fyrirtækisins. AFP/Jung Yeon-je

Samsung Electronics hefur lagt bann við notkun gervigreindar á borð við ChatGPT innan farsíma- og tækjadeildar sinnar eftir að upp komu tilfelli um „misnotkun“ á tækninni. Fyrirtækið greindi frá ákvörðun sinni í dag.

Áhugi á gervigreind hefur aukist til muna frá því að spjallmennið ChatGPT, sem stutt er af Microsoft, var kynnt í nóvember. 

ChatGPT getur samið texta á borð við ritgerðir, sönglög, próf og jafnvel fréttagreinar á augabragði út frá einföldum fyrirmælum og hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir eiginleika sína. Aðferðir ChatGPT og annarrar gervigreindar við öflun og úrvinnslu upplýsinga hafa verið gagnrýndar.

Stórfyrirtæki innan fjármálageirans, svo sem Goldman Sachs, hafa undanfarið bannað eða takmarkað notkun starfsmanna sinna á notkun ChatGPT og sambærilegri gervigreind.

Suðurkóreska fyrirtækið Samsung Electronics, einn stærsti framleiðandi minniskubba og snjallsíma, hefur nú bæst við þann lista. 

Suðurkóreska fyrirtækið Samsung Electronics hefur bæst við þann lista fyrirtækja …
Suðurkóreska fyrirtækið Samsung Electronics hefur bæst við þann lista fyrirtækja sem bannað hafa notkun ChatGPT. AFP/Pau Barrena

Bannið á við starfsfólk innan farsíma og tækjadeildar, samkvæmt talsmanni Samsung. Þetta kemur fram á vef AFP.

Samsung vinnur nú að því að finna leiðir til þess að nýta gervigreind „svo öryggi starfsfólks sé tryggt og afköst um leið aukin,“ segir á minniblaði. 

„...þar til því hefur verið náð höfum við bannað notkun gervigreindarþjónustu tímabundið í tölvum í eigu fyrirtækisins.“ 

Þá hafi fyrirtækið einnig ráðlagt starfsfólki sínu að forðast að gefa gervigreindinni upp vinnutengdar upplýsingar á persónulegum fartölvum sínum. 

Fram kemur að orðið hafi „tilfelli þar sem komið hefur fram misnotkun“ á þjónustu ChatGPT á meðal starfsmanna Samsung. Ekki voru gefnar frekari upplýsingar um tilfellin.

Í skoðanakönnun á vegum fyrirtækisins sögðu meira en 60 prósent að notkun gervigreindar í tækjum fyrirtækisins fylgdi aukin áhætta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert