Mannlegt að rugla hlutum saman

„Þessi mynd var tekin af hópnum sem var með mér …
„Þessi mynd var tekin af hópnum sem var með mér á fjárfestakynningunni. Þar eru Eren, nemandi við Columbia-háskólann, Andriy, markaðsstjóri Atlas Primer, Alejandra, nemandi við Bennington-háskólann og ég.“ Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum verið að byggja þetta út frá síðasta ári og erum núna komnir með eitthvað um 3.000 notendur sem eru að nota þetta virkt,“ segir Hinrik Jósafat Atlason í samtali við mbl.is, maðurinn á bak við gervigreinda kennarann Atlas Primer sem Hinrik sér fyrir sér sem lausn í nálgun þeirra, sem hefðbundið bóknám höfðar síður til, við námsefni.

„Nú kaupir fjöldi manns af okkur áskrift og það er að gefa okkur ákveðna tilfinningu fyrir því hvernig við erum að leysa þetta vandamál. Það hefur orðið til þess að við höfum getað talað af meiri sannfæringu við erlenda fjárfesta og aðra. Við fengum til dæmis inn nýja fjárfesta í janúar sem eru í New York,“ segir Hinrik sem dvalið hefur langdvölum vestanhafs það sem af er ári og unnið með þessum sömu fjárfestum við að koma Atlas Primer á Bandaríkjamarkað.

Gjörbreyttist með Chat GPT

„Þarna er öðruvísi hugsunarháttur, hlutirnir gerast hraðar og það er ómetanlegt að vera í hringiðunni miðri og geta farið á flug með stuttum fyrirvara,“ segir Hinrik sem lét af starfi sínu sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík til að geta sinnt Atlas Primer af heilum hug.

„Gervigreindarumhverfið gjörbreyttist fyrir sex mánuðum þegar Chat GPT kom, hér áður fyrr gat verið erfitt fyrir okkur að útskýra hvað við vorum að gera því við vorum í raun að búa til spjallmenni og fólk tengdi það svo oft við bréfaklemmuna frá Microsoft,“ segir Hinrik og vísar í fyrirbæri sem mörgum notendum Office-forrita Microsoft þótti hrein plága, gervigreinda bréfaklemmu sem þóttist vita allt og bauð aðstoð sína almennt fram á röngum tímapunktum.

En hvað sýnist Hinrik þá um þessa gervigreind sem náði að verða eitt umdeildasta fyrirbæri heims á mettíma?

„Að mínu viti er það það sem gerir þetta mannlegt, að rugla stundum hlutum saman. Uppbyggingin undir niðri er í raun bara tauganet eins og er í hausnum á okkur. Þetta er ekki gagnagrunnur þar sem allt er skrifað orðrétt, þetta eru upplýsingar sem tauganetið er búið að læra. Slíku kerfi verða á mistök,“ svarar Hinrik.

Einn hundraðasti af stærð mannsheilans

Játar hann þó að ótti fræðimanna, sem sendu fyrirtækinu Open AI erindi og báðu það að vægja, sé mjög rökréttur. „Þú ert með tauganet sem er kannski einn hundraðasti af stærð mannsheilans en það er búið að læra allt sem sett hefur verið á netið. Það er öflug vél og þetta eru bara fyrstu útgáfurnar af henni. Það er mjög líklegt að þetta verði einhvern tímann gáfaðra en við og hvað gerum við þá?“ spyr Hinrik.

Líkir hann samspili mannkyns og gervigreindar við dýr í umhverfinu. „Hvernig lítum við á þau? Hvernig réttlætum við kjötát? Með því að dýrin hafi ekki sama skilning og við, hafi ekki meðvitund. Væri óhugsandi að gervigreind sem er kannski hundrað eða þúsund sinnum gáfaðri en við myndi hugsa svipað?“ spyr Hinrik enn. Hann kveðst þó sjá tilefni til bjartsýni vegna þess hve samfélagslega mikilvæg tæknin sé.

Hinrik kynnir Atlas Primer á South by South West-ráðstefnunni í …
Hinrik kynnir Atlas Primer á South by South West-ráðstefnunni í Austin í Texas 12. mars. Ljósmynd/Aðsend

Talið berst að Atlas Primer á ný. „Núna er allur heimurinn búinn að átta sig á því hvað gervigreind getur gert sem er svakalegur meðbyr fyrir okkur. Við erum búin að byggja upp innviðina, við þekkjum samskipti við gervigreind, höfum haft þau í tvö ár,“ segir Hinrik.

Hættuleg tækni?

Hluti þessa meðbyrs séu nýir fjárfestar frá Bandaríkjunum. Margir séu hræddir við gervigreind í tengslum við menntamál. „Mér finnst svo furðulegt að verið sé að tala um að þetta sé svo hættuleg tækni vegna þess að hún geti skrifað heilu ritgerðirnar fyrir nemendur. Kannski eru ritgerðir bara ekki besta leiðin til að meta hvað nemandi kann og skilur. Kannski þarf að meta það upp á nýtt, uppfæra námsmat og námsaðferðir og hjálpa nemendum við að nýta þessa tækni, hún er ekki að fara neitt.“

Hinrik segir gervigreindarkennarann Atlas Primer gera meira af því að leiðbeina en að losa skólanemendur við skyldur sínar, skuldbindinguna við bókina, hið eiginlega nám. „Það er ótrúlega öflug tækni, þarna eru nemendur komnir með einkakennara sem getur leiðbeint þeim á ekki ósvipaðan hátt og mennskir einkakennarar og það er tækni sem við eigum virkilega að nýta okkur,“ segir Hinrik Jósafat Atlason að lokum um hugarfóstur sitt og sköpunarverk, Atlas Primer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert