Óttast að gervigreind geti útrýmt mannkyninu

Sam Altman, forstjóri OpenAi, er á meðal þeirra sem hafa …
Sam Altman, forstjóri OpenAi, er á meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum af þróuninni verði ekkert að gert. AFP

Gervigreind getur leitt til útrýmingar mannskyns. Þetta segja sérfræðingar, m.a. þeir sem stýra OpenAI og Google Deepmind. 

Tugir sérfræðinga hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis sem hefur verið birt á vefsíðunni Centre for AI Safety.

Þeir segja að alþjóðasamfélagið eigi að leggja áherslu á að draga úr hættunni á að gervigreind geti útrýmt mannkyninu. Þetta eigi að vera forgangsmál rétt eins og að koma í veg fyrir útbreiðslu heimsfaraldurs og kjarnorkustyrjaldar. 

Forstjóri Google Deepmind tekur í sama streng.
Forstjóri Google Deepmind tekur í sama streng. AFP

Aðrir vilja meina að þessi hætta sé alls ekki fyrir hendi, að því er segir í umfjöllun BBC. 

Sam Altmans, sem er forstjóri OpenAI, sem bjó til gervigreindarlíkanið ChatGPT, Demis Hassabis, forstjóri Google Deepmind, og Dario Amodei hjá Anthropic eru á meðal þeirra sem hafa skrifað undir ofangreinda yfirlýsingu. 

AFP

Geoffrey Hinton, sem er kallaður guðfaðir gervigreindarinnar, og hefur áður varað við hættunni á gervigreind sem býr yfir ofurgreind, hefur einnig stutt ákall sérfræðinganna. 

Fram kemur í umfjöllun BBC, að aðrir sérfræðingar telji óraunhæft að gervigreind geti þurrkað út mannkynið. Slíkur ótti dragi athyglina frá öðrum málum s.s. hlutdrægni í kerfum sem sé raunverulegur vandi sem þurfi að taka á. 

mbl.is

Bloggað um fréttina