Blanda sýndarveruleika og raunveruleika

Eyrún Jónsdóttir forstöðumaður leikjaútgáfu hjá CCP, er stödd í Apple …
Eyrún Jónsdóttir forstöðumaður leikjaútgáfu hjá CCP, er stödd í Apple Park á kynningu Vision Pro gleraugnanna.

Eyrún Jónsdóttir, forstöðumaður leikjaútgáfu hjá CCP, er stödd í Apple Park, höfuðstöðvum tæknirisans Apple í Kaliforníu, á þróunarráðstefnu þar sem ný sýndarveruleikagleraugu voru kynnt í dag. Hún kveðst ekki enn hafa fengið að prófa græjuna, en að hún fái að sjá tækið á ráðstefnunni. Gleraugun munu kosta um hálfa milljón íslenskar krónur.

Á ráðstefnunni kynnti forstjóri Apple, Tim Cook, ný sýndarveruleikagleraugu fyrirtækisins, Vision Pro gleraugun, sem Eyrún lýsir sem einskonar blönduðum sýndarveruleika.

Eyrún kveðst ekki hafa fengið að prófa græjuna, en að hún fái að berja gleraugun augum á ráðstefunni.

Tenging við raunheima getur minnkað aukaverkanir

„Blandaður veruleiki er kannski besta nýyrðið yfir þetta,“ segir Eyrún, en hún kveðst ekki vita til þess að það sé eitt orð á íslensku yfir það sem kallast „augmented reality“ á ensku. 

Hefðbundin sýndarveruleikagleraugu einkennast af því að notandinn setji á sig tölvugleraugu og sjái þar með ekki raunheima lengur, heldur aðeins þann veruleika sem gleraugun sýna honum. 

Vision Pro gleraugun sýna hins vegar raunverulegt umhverfi notandans, að sögn Eyrúnar, en blandi sýndarveruleika við það sem notandinn sér. Tölvuleikir geti því blandast við raunverulegt umhverfi notandans og aðrir umhverfis notandann séð augu hans.   

Aukin tenging við raunheima í sýndarveruleikanum geti minnkað aukaverkanir og óþægindi, eins og t.d. sjóveiki eða að fólki bregði við umstang í kring um sig. 

„Þú getur náð sambandi við fólk í kring um þig og séð ef hundurinn er að koma eða hvað sem það er í umhverfinu,“ segir Eyrún.

Ekki á fjöldamarkað strax

Eyrún segir gleraugun opna fyrir ný tækifæri fyrir notendur og framleiðendur, en að þróunin sé að miklu leyti á þróunarstigi. Hún segir þróunina klárlega geta haft áhrif á núverandi vörur og tækifæri fyrir framtíðar vöruþróun, en að það sé eitthvað sem þurfi að skoða betur.

Aðspurð hvort blandaður veruleiki muni taka algerlega við af hefðbundnum sýndarveruleika, kveðst Eyrún ekki telja að tæknin komi á fjöldamarkað strax.

„Þetta er rosalega dýrt tæki. Þetta kemur í sölu á næsta ári og það er verið að tala um að verðið verði 3.500 dollarar sem er um hálf milljón íslenskar.“

Hún segir tæknina hins vegar ýta undir frekari þróun sem verði til þess að slík tækni komist á fjöldamarkað fyrr en síðar. „Það þarf að byrja einhvers staðar.“

mbl.is