Kuldablettur við Ísland setur hlýnun úr skorðum

Hér sést kuldabletturinn á hitakorti Nasa frá árinu 2015.
Hér sést kuldabletturinn á hitakorti Nasa frá árinu 2015. Kort/Nasa

Kuldabletturinn í Norður-Atlantshafinu. Svo kallast svæði suðvestur af Íslandi þar sem tiltölulega kalt hefur verið í samanburði við það sem áður var, á sama tíma og hlýnunar gætir víðast hvar um heiminn.

Korti sem sýnir blettinn hefur verið dreift á samfélagsmiðlum að undanförnu, í samhengi við þá tilfinningu höfuðborgarbúa að meiri hita skorti á suðvesturhorninu nú í byrjun sumars. Fregnir af miklum hlýindum á austanverðu landinu hafa ekki bætt þar úr skák.

Síðustu sumur þykja hafa sömuleiðis valdið vonbrigðum í Reykjavík, að minnsta kosti hvað lofthita varðar.

Í samtali við mbl.is segir Haraldur Ólafsson, prófessor við raunvísindadeild Háskóla Íslands, kortið sýna hitafrávik árið 2015.

Bráðnun Grænlandsjökuls

Frávikið er talið mega rekja til þess að sjórinn sé kaldari, sem sé líklega vegna þess að hægt hafi á djúpsjávarmyndun.

Haraldur segir að margt bendi til að djúpsjávarmyndun hafi verið hægari um nokkurt skeið og sé það líklega tengt því að ferskvatn hafi aukist í efstu lögum sjávar.

Er það talið stafa fyrst og fremst af bráðnun Grænlandsjökuls.

Reiknilíkön spá því sama

Haraldur segir það áhugavert að reiknilíkön sem spá fram í tímann geri ráð fyrir auknum hita á öllum stöðum jarðar, en einna minnst á þessum bletti, suðvestan Íslands.

Nánast alls staðar annars staðar á hnettinum verði hlýnun meiri, en á þessu svæði við Ísland.

Þegar litið er til síðustu ára segir Haraldur þetta svæði hafa verið í kaldara lagi. Hann segir kuldann því líklegast mega rekja til lægri sjávarhita og ýmsar rannsóknir benda til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina