Fundu lífvænlega plánetu í ljónsmerkinu

Uppdráttur fræðimanna af því hvernig plánetan K2-18b gæti litið út.
Uppdráttur fræðimanna af því hvernig plánetan K2-18b gæti litið út. Ljósmynd/NASA, CSA, ESA, J. Olmsted (STScI)

Rannsóknir bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA benda til þess að plánetan K2-18b í ljónsmerkinu, um 120 ljósár frá jörðu, fóstri hvort tveggja koltvísýring og metan í lofthjúpi sínum.

K2-18b er 8,6 sinnum umfangsmeiri en jörðin og benda rannsóknir NASA, sem vísindamenn stofnunarinnar hafa framkvæmt gegnum James Webb-stjörnusjónaukann, til þess að lofttegundin vetni og höf geti verið til staðar á K2-18b.

Plánetan gengur á sporbaug um köldu dvergstjörnuna K2-18 og er stærð hennar á milli stærðar jarðar og Neptúnusar hér í sólkerfinu. Ekki er kálið þó sopið þótt í ausuna sé komið, plánetur í flokki K2-18b eru þrætuepli vísindamanna þar sem eðli þeirra og umhverfi er langt utan fræðasviðs jarðneskra vísindamanna enn sem komið er.

Sumir vísindamenn telja að plánetur á borð við K2-18b geti búið yfir lífverum, aðrir telja svo hins vegar ekki vera.

Ekki síðri rannsóknir

„Niðurstöður okkar undirstrika mikilvægi þess að við rannsökum lífvænlegt umhverfi annars staðar í alheiminum með leit að lífi í huga,“ segir Nikku Madhusudhan, stjarnfræðingur við Cambridge-háskólann og einn höfunda greinar um rannsóknir á K2-18b, í samtali við vefsíðu NASA.

Bætti Madhusudhan því við að rannsóknir á slíkum plánetum væru mikilvægar ekki síður en rannsóknir er beindust að minni og grýttari plánetum. K2-18b gæti búið yfir svipuðu andrúmslofti og jörðin.

Metan og koltvísýringur, auk takmarkaðs magns ammóníaks, styðja að mati vísindamanna NASA þá kenningu að höf séu finnanleg á K2-18b. Auk þess hafa rannsóknir gegnum Webb-sjónaukann bent til þess að á plánetunni sé að finna sameindina dímetýlsúlfíð, eða DMS, en á jörðinni geta lífverur einar myndað hana, svo sem þörungar.

Grein vefjar NASA

mbl.is