Fyrrverandi þjóðarleiðtogar og stjórnendur alþjóðlegra stofnana kalla eftir því að bann verði lagt á notkun á tækni sem er ætlað að draga úr hlýnun jarðar með því að draga úr áhrifum sólarljóss.
Sérstök nefnd sérfræðinga á sviði loftslagsmála, The Climate Overshoot Commission (COC), segir að halda eigi áfram með rannsóknir og tilraunir með tækni, sem kallast á ensku solar radiation modification (SRM), en það eigi aðeins að gera undir alþjóðlegu eftirliti og á svæðum þar sem reglur um umhverfismál eru í hávegum höfð.
Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að sem stendur sé ekkert alþjóðlegt eftirlit í gildi varðandi þróun eða notkun á slíkri tækni, auk þess sem menn átta sig ekki fullkomlega á þeirri áhættu sem henni fylgi.
„Við verðum að setja á bann,“ segir Laurence Tubiana, sem er framkvæmdastjóri evrópsku loftalagsstofnunarinnar, sem er einnig arkitektinn á bak við Parísarsáttmálann, en markmið hans er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að takmarka hlýnun við 1,5°C.
„Við vitum hverjar áhætturnar eru - þetta er ekki nein töfralausn.“
Þar sem illa hefur gengið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem á þátt í hlýnun jarðar, þá hafa sumir velt vöngum yfir því hvort hægt sé að kaupa sér tíma með því að þróa loftslagsverkfræðilegar aðferðir sem ætlað er að kæla jörðina. Sú hugmynd var þó víða slegin út af borðinu fyrir um áratug á á þeim grundvelli að þetta væri of áhættusamt.
Hingað til hefur hækkun um 1,2 gráður á jörðinni stuðlað að því að hættulegar hitabylgjur, þurrkar og mikil óveður eru bæði tíðari og öflugri en áður.
Nafn nefndarinnar, The Climate Overshoot Commission, bendir til þess að allar líkur séu á því að hnattræn hlýnun verði meiri en markmið Parísarsáttmálans segja til um, og að það gerist líklega innan áratugar.
Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur sagt að það þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 43% fyrir árið 2030 eigi það að nást að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C.
Pascal Lamy, sem er fyrrverandi forstjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, segir að þegar aðeins tæp sex ár séu til stefnu, þá hafi losun gróðurhúsalofttegunda aukist fremur en að dragast saman. „Það er augljós þörf á aðgerðum þegar í stað.“
Í COC eiga sæti 13 fyrrverandi leiðtogar og ráðherrar frá Pakistan, Kanada, Níger, Indónesíu, Kyrrahafsríkinu Kíribati auk þekktra fræðimanna og fyrrverandi stjórnenda stofnana. Nefndin var sett á laggirnar til að leggja til hugmyndir og leiðri til að draga úr því að farið verði fram úr markmiðum Parísarsáttmálans.
Það er enn lögð mest áhersla á að draga úr losun koltvísýrings, metangass og annarra gastegunda sem hafa áhrif á hlýnun jarðar.
Þá er einnig lögð áherslu á beitingu nýrrar tækni til að auka kolefnisbindingu í jarðvegi með því að soga koltvísýring úr andrúmslofti.
Fólk beið þó spennt eftir að heyra hvað nefndin hafði að segja um SRM-tæknina.
Sú tækni gengur úr á að úða saltögnum úr hafinu á ský sem eru yfir hafsvæðum með þeim afleiðingum að þau breytist í einskonar spegla sem geti endurkastað sólarljósi frá jörðinni.
Fram kemur í umfjöllun AFP að slíkar aðstæður geti skapast af náttúrunnar hendi. Það hafi t.d. gerst árið 1991 þegar gríðarmikið eldgos varð í Pinatubo-eldfjallinu á Filippseyjum. Fjallið spúði milljónum tonna af ryki og öðrum ögnum upp í andrúmsloftið sem leiddi til þess að hitastig á jörðinni, þá sérstaklega á norðurveli jarðar, lækkaði um um eitt ár.
Vísindamenn og sérfræðingar segja að menn verði að vega og meta kosti og galla slíkra tilrauna, því menn viti í raun ekki almennilega hverjar mögulegra aukaverkanirnar séu.
Ef dregið yrði úr áhrifamætti sólarinnar með aðstoð fyrrgreindrar tækni, þá þykir líklegt að slíkt myndi hafa áhrif á monsúnrigningar í Suður-Asíu og í vesturhluta Afríku. Það gæti svo haft neikvæð áhrif á uppskerur og þar með fæðuöryggi mörg hundruð milljóna sem treysta á uppskerurnar.
Þetta gæt einnig snúið við þeirri jákvæðu þróun sem hefur orðið á ósonlaginu sem hindrar því að sterk útfjólublá geislun nái til jarðar.
Þá óttast sumir vísindamenn að hitastig jarðar geti aukist hratt verði skyndilega látið af notkun SRM-tækninnar.