Rithöfundar í hart við höfunda ChatGPT

AFP

George R.R. Martin, höfundur Game of Thrones, hefur, ásamt fleiri vinsælum rithöfundum, höfðað hópmálsókn á hendur tæknifyrirtækinu OpenAI. Rithöfundarnir halda því fram að fyrritækið hafi brotið gegn höfundarrétti þeirra við þróun á gervigreindarforritinu ChatGPT. 

Hagsmunasamtök rithöfunda og nokkrir þekktir höfundar á borð við Martin, John Grisham og Jodi Picoult saka OpenAI, sem hefur aðsetur í Kaliforníu í Bandaríkjunum, að nota þeirra bækur í heimildarleysi í því skyni að þjálfa tungumálakerfi ChatGPT. 

Rithöfundurinn George R.R. Martin
Rithöfundurinn George R.R. Martin AFP

Fram kemur í málsskjölunum að um sé að ræða umfangsmikinn og kerfisbundinn þjófnað.

Aðrir listamenn, samtök og forritarar hafa einnig höfðað mál gegn OpenAI og keppinautum þeirra, þar sem því er haldið fram að þeirra verkum hafi hreinlega verið stolið. 

Talsmenn OpenAI hafa ekki svarað fyrirspurn AFP vegna málsins. 

Í málsskjölunum segir að tungumálakerfi OpenAI ógni afkomu rithöfunda, því kerfið geri hverjum sem er kleift að búa til, bæði sjálfkrafa og ókeypis [eða með mjög ódýrum hætti], texta sem þeir myndu annars greiða rithöfundum fyrir að semja. Hægt sé að nota ChatGPT til að framleiða verk sem hermi eftir stíl þekktra rithöfunda. 

Þá halda rithöfundarnir fram að án þeirra verka, sem hafi verið notuð til að þjálfa spjallmennið, þá væri enginn tekjugrundvöllur fyrir ChatGPT. 

mbl.is
Loka