Ofhitnun iPhone 15 til skoðunar

iPhone 15 getur hitnað fram úr hófi.
iPhone 15 getur hitnað fram úr hófi. AFP/Patrick T. Fallon

Apple segist búið að finna hvað veldur því að nýjasta gerð síma fyrirtækisins, iPhone 15, ofhitni. Fyrirtækið segist hafa fundið villu í stýrikerfinu iOS 17 sem verði löguð í næstu uppfærslu.

Margar kvartanir hafa borist vegna þessa hvimleiða galla. Apple segir að símtækið geti virkað heitara en ella fyrstu dagana eftir uppfærslur, þar sem meiri vinnsla og virkni sé í tækinu á þeim tíma.

Hönnunin er hluti vandans

Eins segist Apple vera í samvinnu við aðra smáforrita framleiðendur að laga meinta galla sem verða til þess að símarnir hitna svo gjarnan. Dæmi um slík smáforrit eru Instagram og Uber.

Apple segir að næsta uppfærsla muni ekki draga úr vinnslugetu símans heldur einungis vera ætlað til að draga úr hitavandamálinu. Ekki hefur verið vart við þetta vandamál í tækjunum iPhone 15 Pro og Pro Max, en ytra byrði þeirra er búið til úr títaníum sem leiðir hita betur heldur en ryðfrítt stál. 

Samkvæmt Reuters fullvissar Apple neytendur um að ekki stafi hætta af nýju símunum og að hitaleiðnin muni ekki hafa áhrif á virkni þeirra til langframa.  

mbl.is