Þrennt hlýtur Nóbelsverðlaun í eðlisfræði

Anne L'Huillier, fagnar verðlaununum með Oscari syni sínum og eiginmanninum …
Anne L'Huillier, fagnar verðlaununum með Oscari syni sínum og eiginmanninum Claes-Göran í Háskólanum í Lundi í dag. AFP/Ola Torkelsson

Þrír eðlisfræðingar hljóta Nóbelsverðlaunin í sínu fagi þetta árið fyrir ljóstækni til rannsókna á hegðun rafeinda í efni. Þetta eru Frakkinn Pierre Agostini, hin fransk-sænska Anne L'Huillier og hinn ungversk-austurríski Ferenc Krausz.

Lauk Nóbelsdómnefndin lofsorði á verk þremenninganna sem þróað hafa aðferð byggða á ljóspúlsum til rafeindarannsókna sem auk þess hafi læknisfræðilegt notagildi við sjúkdómsgreiningar.

Ferenc Krausz fagnar gríðarlega í Max-Planck-stofnuninni í Garching í Þýskalandi.
Ferenc Krausz fagnar gríðarlega í Max-Planck-stofnuninni í Garching í Þýskalandi. AFP/Christof Stache

Jafn margar og sekúndurnar frá upphafi

Snerpa púlsanna mælist í attósekúndum sem að sögn dómnefndarinnar eru svo skammvinnar tímaeiningar að þær mælast jafn margar í einni hefðbundinni sekúndu og þær sekúndur sem liðið hafa frá upphafi alheimsins fyrir rúmum 13 milljörðum ára. Með notkun svo snarpra púlsa megi fylgjast með hreyfingum rafeinda og þar með fyrirbærum sem fram til þessa hefur verið ómögulegt að koma nokkurri mælingu á.

Agostini er prófessor í eðlisfræði við Ríkisháskóla Ohio í Bandaríkjunum, Krausz er forstöðumaður Max Planck-stofnunarinnar í Þýskalandi og L'Huillier er prófessor við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Er hún fimmta konan sem hlýtur Nóbelsverðlaun í eðlisfræði síðan árið 1901.

Nóbelsverðlaunanefndin í eðlisfræði tilkynnir verðlaunahafa ársins í Stokkhólmi í Svíþjóð …
Nóbelsverðlaunanefndin í eðlisfræði tilkynnir verðlaunahafa ársins í Stokkhólmi í Svíþjóð í dag. AFP/Jonathan Nackstrand
mbl.is