Forritið ekki fyrir þá sem hata húmor

Elon Musk hefur kynnt til leiks gervigreindarforritið Grok.
Elon Musk hefur kynnt til leiks gervigreindarforritið Grok. AFP/Leon Neal

Elon Musk hefur kynnt til leiks gervigreindarforritið Grok og er það orðið aðgengilegt fyrir útvaldan hóp fólks til reynslunotkunar. Musk segir að Grok muni vera fyndnara en hefðbundið gervigreindarforrit eins og ChatGPT.

Það er gervigreindarfyrirtæki Elon Musk, xAI, sem hannar þetta forrit sem mun koma til með að vera í samkeppni við OpenAI, Google og Meta.

Grok er samþætt við X, sem áður hét Twitter. Það þýðir að forritið hefur rauntímaaðgang að upplýsingum á samfélagsmiðlinum. Elon Musk segir þetta gefa forritinu forskot á önnur forrit eins og ChatGPT sem hefur stuðst við eldri upplýsingar af vefnum.

Spjallmennið elskar kaldhæðni

Elon Musk segir að spjallmennið „elski kaldhæðni“ og bregðist við spurningum með „húmor“. Musk vonast til þess að þessir eiginleikar gefi Grok meiri „persónuleika“.

Musk segir að Grok muni einnig svara spurningum sem önnur gervigreindarforrit hafna að svara, en flest gervigreindarforrit eru með ákveðnar takmarkanir sem eiga að gera þeim kleift að hafna spurningum sem gætu verið taldar móðgandi eða hatursfullar. Í tilkynningu frá fyrirtækinu xAI segir að vegna meints húmors eigi þeir sem hati húmor ekki að nota forritið.

Um leið og búið er að prófa forritið verður það aðgengilegt öllum þeim sem borga fyrir áskrift að samfélagsmiðlinum X.

mbl.is