Enginn vafi er á því að gervigreindarlausnir geta nýst vel á vettvangi Stjórnarráðsins sjálfs og flýtt fyrir og bætt vinnslu ýmissa mála, t.d. við greiningar og skýrslugerð. Er ábatinn við að nýta tæknina svo gríðarlega mikill „að hið opinbera verður að þora að taka skref í átt að aukinni beitingu þessarar tækni.“
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um gervigreind.
Björn bendir á í sinni fyrirspurn að fámenni Íslands og mikið stafrænt læsi geri það að verkum að íslenskt samfélag sé í einstakri stöðu til að nýta gervigreind þvert á opinbera þjónustu. Þá styðji núverandi stafrænir innviðir og opinber gagnasöfn við þróun gervigreindarlausna, en möguleikar til þess séu háðir aðgangi að fullnægjandi gögnum.
Björn spyr ráðherra meðal annars að því hvort hann hafi látið gera úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum ráðherra og stofnana á hans ábyrgð.
Í svarinu kemur fram, að ráðuneytið hafi lagt áherslu á að hver stofnun meti tækifærin sem kunna að felast í að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum sínum. Enn fremur segir að ráðuneytið hafi greint notkun gervigreindar hjá ríkisaðilum í heild með könnun sem fram fór í nóvember 2023 en í henni eru svör þó ekki sundurliðuð á einstakar stofnanir.
„Samkvæmt könnuninni hafa 43% þeirra ríkisaðila sem svöruðu tekið upp gervigreind og 80% sjá möguleika til umbóta í starfsemi með nýtingu gervigreindar. Hefur hlutfallið hækkað töluvert frá 2020 þegar sömu spurningar voru lagðar fyrir en þá höfðu 13% opinberra aðila tekið upp gervigreind og 64% sáu möguleika til að bæta ferla með nýtingu gervigreindar,“ segir í svarinu.
Björn spyr einnig hvaða tækifæri séu í notkun gervigreindar á einstökum málefnasviðum og hjá stofnunum sem ráðherra beri ábyrgð á.
Ráðherra segir engan vafa vera á því að gervigreindarlausnir geti nýst vel á vettvangi Stjórnarráðsins sjálfs og flýtt fyrir og bætt vinnslu ýmissa mála, t.d. við greiningar og skýrslugerð.
„Dæmi um notkun gervigreindar hjá stofnunum ráðuneytisins er sjálfvirk flokkun tölvupósta, einnig notkun spjallmennis á Ísland.is sem byggist þó á eldri gervigreindartækni þannig að til framtíðar eru miklir möguleikar í að bæta þá lausn til þess að sjálfvirknivæða svörun erinda og færa þjónustu nær notendum.
Sértækari verkefni þar sem aðferðum gagnavísinda er beitt hjá Skattinum eru m.a. sjálfvirk flokkun á atvinnugreinanúmerum lögaðila, svokallaðar þyrpingar á lögaðilum, og ýmis verkefni á sviði álagningar skatta, auk þess sem gagnavísindateymi stofnunarinnar vinnur að yfir 60 verkefnum til að bæta þjónustu og falla nokkur þeirra undir gervigreind. Þá er Skatturinn sömuleiðis að taka fyrstu skref í notkun á spunagreind, eða með notkun ChatGPT,“ segir í svari ráðherra.
Þá segir ráðherra að auðvitað þurfi að vanda sig þegar unnið er með gögn um einstaklinga og fyrirtæki en ábatinn við að nýta tæknina sé svo gríðarlega mikill að hið opinbera verði að þora að taka skref í átt að aukinni beitingu þessarar tækni.