Rannsókn hefur leitt í ljós að fólk sem eyðir meiri tíma fyrir framan skjá í rúminu er líklegra til að fá minni svefn og þróa með sér svefnleysi. BBC greinir frá.
Rannsóknin byggir á norskri könnun meðal fleiri en 45.000 nemenda á aldrinum 18 til 28 ára árið 2022.
Þar kemur fram að hver auka klukkustund fyrir framan skjái auki líkurnar á svefnleysi um 63% og leiði til 24 mínútna styttri svefns.
Rannsakendur sögðu þó að þeir hefðu aðeins staðfest fylgni milli skjánotkunar og lakari svefngæða en ekki sýnt fram á að hið fyrrnefnda ylli því síðarnefnda.
Sérfræðingar segja að það að leggja frá sér símann fyrir svefninn, gera eitthvað afslappandi og koma sér upp rútínu geti hjálpað til við að bæta svefn.
Rannsakendurnir að baki rannsókninni vildu skoða tengslin milli þess tíma sem varið er fyrir framan skjái í rúminu og svefnmynsturs.
Þeir vildu einnig kanna áhrif samfélagsmiðlanotkunar á svefn samanborið við aðra skjánotkun.
Dr. Gunnhild Johnsen Hjetland frá Norsku lýðheilsustofnuninni er aðalhöfundur rannsóknarinnar en niðurstöður hennar voru birtar í tímariti Frontiers.
Hjetland segir að tegund skjánotkunar virtist hafa minni áhrif á svefninn en heildarskjátíminn.
„Við fundum engan marktækan mun á milli samfélagsmiðla og annarrar skjánotkunar, sem bendir til þess að skjánotkunin sjálf sé lykilþátturinn í svefntruflunum,“ segir hún.
Joshua Piper, svefnsérfræðingur hjá ResMed UK, sagði í samtali við BBC rannsóknina veita verðmætar sannanir fyrir því að notkun raftækja hafi neikvæð áhrif á svefn.
Þó að fólk reyni kannski að draga úr áhrifunum með því að stilla birtustig skjáa tækja sinna eða að nota næturham, sagði Piper að fyrri rannsóknir bentu til þess að það væri skrollið og virk notkun tækisins sem ylli líklega svefntruflunum.