Tíu frumkvöðlar undir þrítugu kynna uppfinningar sínar í Hörpu í dag, þegar Hugvitsverðlaun ungra frumkvöðla (Young Inventors Prize) verða veitt í fjórða sinn á vegum Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO).
Hægt verður að fylgjast með verðlaunahátíðinni í beinu streymi hér frá klukkan 16.
Verðlaunin eru hluti af stærri viðburði sem fer fram í Hörpu í dag þar sem einnig fer fram árlegur samráðsfundur 39 aðildarlanda EPO. Um 300 gestir hvaðanæva að úr Evrópu sækja fundinn, þar á meðal forstjórar hugverkastofa landanna.
Hugvitsverðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar og einkaleyfa, en valdir eru einstaklingar og teymi sem þróað hafa lausnir sem stuðla að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Dómnefnd veitir verðlaun í þremur flokkum; „Heimssmiðir“, „Samfélagslæknar“ og „Varðmenn náttúrunnar“. Auk þess verða veitt sérstök verðlaun í vali almennings.
Fulltrúar tíu uppfinninga eru tilnefndir, allt frá lofthreinsikerfum og kolefnisföngurum yfir í snjallmerki sem draga úr matarsóun og ensímahönnun með aðstoð gervigreindar.
Allir tilnefndir fá 5.000 evrur, en sigurvegarar í hverjum flokki hljóta 15.000 evrur til viðbótar.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, er einn af þeim sem sitja í dómnefnd fyrir verðlaunin.