Bandaríkjamennirnir Mary E. Brunkow og Fred Ramsdell og Shimon Sakaguchi frá Japan hlutu í dag Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á ónæmiskerfinu.
Uppgötvanir þeirra hafa dýpkað verulega skilning manna á því hvernig ónæmiskerfið virkar og hvers vegna við fáum ekki öll alvarlega sjálfsofnæmissjúkdóma.
Þremenningarnir voru heiðraðir „fyrir uppgötvanir sínar varðandi útlægt ónæmisþol“, segir í rökstuðningi Nóbelsdómnefndarinnar.
„Uppgötvanir þeirra hafa lagt grunninn að nýju rannsóknarsviði og ýtt undir þróun nýrra meðferða, til dæmis við krabbameini og sjálfsofnæmissjúkdómum,“ bætti hún við.
Niðurstöður þeirra gætu einnig leitt til árangursríkari líffæraígræðslna.
Sakaguchi, sem er 74 ára, gerði fyrstu lykiluppgötvunina árið 1995.
Á þeim tíma voru margir vísindamenn sannfærðir um að ónæmisþol þróaðist aðeins vegna þess að hugsanlega skaðlegar ónæmisfrumur væru fjarlægðar í hóstakirtlinum með ferli sem kallast „miðlægt þol“.
Sakaguchi sýndi fram á að ónæmiskerfið væri flóknara og uppgötvaði áður óþekktan flokk ónæmisfrumna sem vernda líkamann gegn sjálfsofnæmissjúkdómum.
Brunkow og Ramsdell, sem eru 64 ára, gerðu hina lykiluppgötvunina árið 2001 þegar þau gátu útskýrt hvers vegna ákveðnar mýs voru sérstaklega viðkvæmar fyrir sjálfsofnæmissjúkdómum.
„Þau höfðu uppgötvað að mýsnar voru með stökkbreytingu í geni sem þau nefndu Foxp3,“ sagði í rökstuðningi dómnefndar.
„Þau sýndu einnig fram á að stökkbreytingar í mannlegri samsvörun þessa gens valda alvarlegum sjálfsofnæmissjúkdómi, IPEX.“
Tveimur árum síðar tókst Sakaguchi að tengja þessar uppgötvanir saman.
Þríeykið mun taka á móti verðlaunum sínum, viðurkenningarskjalinu, gullpeningnum og 1,2 milljóna dollara ávísun, úr hendi Karls XVI Gústafs konungs við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi þann 10. desember.