Verðlaunaðir fyrir afrek á sviði skammtafræði

Bretinn John Clarke, Frakkinn Michel H. Devoret og Bandaríkjamaðurinn John …
Bretinn John Clarke, Frakkinn Michel H. Devoret og Bandaríkjamaðurinn John M. Martinis hafa verið verðlaunaðir fyrir vísindaafrek í eðlisfræði. AFP

Bretinn John Clarke, Frakkinn Michel H. Devoret og Bandaríkjamaðurinn John M. Martinis hlutu í dag Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir störf sín á sviði skammtafræði.

Í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar segir að þremenningarnir hafi verið heiðraðir fyrir uppgötvun á skammtasmugi á stórum skala og orkuskömmtun í rafrás.

Skammtafræði lýsir því hversu ólíkir hlutir virka á ótrúlega smáum skala.

Þegar venjulegur bolti lendir á vegg skoppar hann til dæmis til baka. En á skammtakvarða fer ögn í raun beint í gegnum sambærilegan vegg, fyrirbæri sem kallast skammtasmug.

Tilraunir gerðar á níunda áratugnum

Verðlaunin í dag voru veitt fyrir tilraunir þremenninganna á níunda áratugnum sem sýndu að skammtasmug getur einnig átt sér stað á stórum skala – með mörgum ögnum – með notkun ofurleiðara.

Í röð tilrauna sýndu vísindamennirnir fram á að „hægt er að gera undarlega eiginleika skammtaheimsins áþreifanlega í kerfi sem er nógu stórt til að halda á því í hendinni,“ sagði Konunglega sænska vísindaakademían í yfirlýsingu.

Nefndin benti á að uppgötvanirnar hefðu „skapað tækifæri til að þróa næstu kynslóð skammtatækni, þar á meðal skammtadulritun, skammtatölvur og skammtanema“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert