Ísland fær 700 milljóna styrk í gervigreindarmiðstöð

Miðstöðin verður staðsett í Grósku.
Miðstöðin verður staðsett í Grósku. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Evrópska miðstöðin EuroHPC Joint Undertaking hefur veitt íslensku samstarfsverkefni ríflega 700 milljónir króna til að koma á fót miðstöð fyrir gervigreind og stórvirka tölvuvinnslu á Íslandi. Miðstöðin verður staðsett í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Grósku.

Þetta kemur fram fram í fréttatilkynningu frá Almannarómi sem er miðstöð í máltækni. 

Verkefnið er leitt af Almannarómi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Vísindagarða HÍ, Veðurstofu Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Heildarfjárhæð verkefnisins nemur 1,4 milljörðum króna og er það helmingað milli EuroHPC og íslensku samstarfsaðilanna.

Markmiðið er að veita fyrirtækjum, sprotum og stofnunum aðgang að reikniafli, gervigreindarhugbúnaði og sérfræðiráðgjöf til að þróa og prófa nýjar lausnir á sviði gervigreindar. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni á sviði heilbrigðis, loftslags- og umhverfismála, endurnýjanlegrar orku og máltækni.

Tengt öflugustu ofurtölvu Evrópu 

„Þessi tíðindi marka tímamót og allir sem lagt hafa hönd á plóg eiga mikið hrós skilið,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. „Hér stígum við stórt skref inn í framtíð þar sem Íslendingar verða fullgildir þátttakendur í gervigreindarbyltingunni,“ er haft eftir Loga í tilkynningu. 

Miðstöðin verður tengd við LUMI AI Factory í Finnlandi, eina öflugustu ofurtölvu Evrópu, og mun þannig tengja íslenska notendur beint við evrópska gervigreindarinnviði og rannsóknasamfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert